Hitti fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar

Frans páfi er í tveggja daga opinberri heimsókn á Írlandi.
Frans páfi er í tveggja daga opinberri heimsókn á Írlandi. AFP

Frans páfi hitti í dag átta fórnarlömb kyn­ferðis­brota­manna inn­an kaþólsku kirkj­unn­ar á Írlandi. Páfinn er í tveggja daga opinberri heimsókn á Írlandi og sagðist sjálfur upp­lifa sárs­auka og skömm yfir því að kaþólska kirkj­an hefði ekki brugðist við fjölda kyn­ferðis­brota­mála sem komið hafa upp í gegn­um tíðina.

Frans páfi ræddi við áttmenningana í um það bil eina og hálfa klukkustund. Þeirra á meðal er fórnarlamb prestsins Tony Walsh, sem misnotaði hundruð barna um tveggja áratuga skeið áður en hann var útskúfaður úr kaþólsku kirkjunni og fangelsaður. Talsmaður Vatíkansins segir að fórnarlambið kjósi að koma ekki fram undir nafni.

Marie Collins, sem var misnotuð af presti þegar hún dvaldi á spítala þegar hún var 13 ára gömul, hitti páfa í dag. Það gerði einnig Patrick McCafferty, sem var misnotaður þegar hann lærði til prests á níunda áratugnum. Damian O´Farrell, bæjarfulltrúi í Dublin, var einnig meðal þeirra sem ræddu við páfa í dag, en O´Farrell var misnotaður af starfsmanni kaþólsku kirkjunnar þegar hann var 12 ára.

Páfi ferðaðist um götur Dublin í dag á sérútbúnum hvítum …
Páfi ferðaðist um götur Dublin í dag á sérútbúnum hvítum pallbíl. AFP

Fæddist á stofnun fyrir óléttar og ógiftar konur

Paul Jude Redmond deildi einnig sinni sögu með páfanum, en móðir hans er ein af þúsundum írskra kvenna sem voru læstar inni á kaþólskum stofnunum fyrir að vera óléttar og ógiftar. Þegar Redmond fæddist var hann gefinn til ættleiðingar, fæðingarvottorð hans falsað og hjónin sem ættleiddu hann voru skráð sem líffræðilegir foreldrar hans.

Heimsókn páfa hefur óneitanlega einkennst af ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar. Fyrr í dag hvatti Leo Vara­dk­ar, for­sæt­is­ráðherra Írlands, páfa til að tryggja öll­um fórn­ar­lömb­um kyn­ferðis­brota­manna inn­an kaþólsku kirkj­unn­ar rétt­læti.

Heimsókn páfa lýkur á morgun með fjöldamessu í Phoenix-garðinum. Áætlað er að um hálf milljón komi saman og hlýði á predikun Frans páfa. 

Fjöldi fólks tók á móti páfanum á Croke Park Stadium …
Fjöldi fólks tók á móti páfanum á Croke Park Stadium í Dublin þar sem fram fór sérstök fjölskyldusamkoma. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert