Öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn John S. McCain, sem lést seint á laugardagskvöld að íslenskum tíma, var um langt skeið með virtustu þingmönnum Bandaríkjanna og lætur hann eftir sig sjö börn og enn fleiri barnabörn.
Hann átti langan stjórnmálaferil og segir BBC í umfjöllun sinni að forsetaframboð hans hafi verið fyrstu ummerki undiröldunnar gegn ríkjandi öflum í bandarískum stjórnmálum.
McCain hefur einnig verið þekktur fyrir að vera hæst setti þingmaður repúblikana sem gagnrýnt hefur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
McCain fæddist 29. ágúst 1936 í Coco Solo á yfirráðasvæði Bandaríkjanna við Panamaskurðinn, en á þessu svæði var mikilvæg flotastöð Bandaríkjanna og var faðir hans í bandaríska flotanum. Faðirinn varð síðar skipstjóri kafbátsins Gunnel í seinni heimsstyrjöldinni og varð frægur fyrir framúrskarandi hæfileika. Hann varð síðar flotaforingi (e. admiral) og tók þátt í Kóreustríðinu og Víetnamstríðinu.
Afi McCains varð einnig flotaforingi sem kom að bæði fyrri og seinni heimsstyrjöldum. Stjórnaði hann meðal annars öllum flugaðgerðum í baráttunni um Guadalcanal.
McCain fylgdi í fótspor föður síns og afa og skráði sig í flotaforingjaskólann í Annapolis sem hann útskrifaðist úr 1958. Þaðan fór hann til Pensacola í Flórída til þess að læra að verða orrustuflugmaður til hafs.
Árið 1967 bauðst McCain að fara til Víetnam, þar var hann flugmaður A-4 Skyhawk-orrustuflugvélar flugmóðurskipsins USS Forrestal og síðar USS Oriskany. Tók hann þátt í hernaðaraðgerðinni Rolling Thunder, sem ætlað var að eyðileggja iðnaðarframleiðslu Norður-Víetnams ásamt samgöngum þess til þess að draga úr stuðningi ríkisins við kommúnista í Suður-Víetnam.
Þann 26. október 1967 varð flugvél hans fyrir flugskeyti í nágrenni borgarinnar Hanoi í Norður-Víetnam. Honum tókst að losna úr flugvélinni, en í þeirri aðgerð braut hann báða handleggi og annan fótlegg og nærri því drukknaði þegar hann lenti í Truc Bach-vatni. Í Norður-Víetnam var McCain handtekinn og færður í fangabúðir þar sem hann var í haldi til 1973.
Eftir áverka sína í kjölfar þess að vera skotinn niður og að hafa sætt pyntingum í fangabúðunum var McCain haltur það sem eftir var af ævinni og gat hann ekki lyft handleggjum sínum yfir höfuð. Vegna áverka sinna sá hann ekki fram á að geta fengið frekari stöðuhækkanir í sjóhernum og ákvað að yfirgefa hann 1981.
McCain var í alla tíð ötull andstæðingur pyntinga og þeirra yfirheyrsluaðferða á borð við vatnsyfirheyrslu (e. waterboarding) sem bandarísk yfirvöld beittu föngum í stríðinu gegn hryðjuverkum.
Árið 1981 flutti McCain til Arizona og var fyrst kjörinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings 1983 eftir að hafa unnið í forkosningum með 6% forskoti og sigraði í þingkosningunum sjálfum með meira en tvöfalt magn atkvæða umfram frambjóðanda Demókrataflokksins.
Hann sat í fulltrúadeild þingsins til ársins 1987, en það ár tók hann við sæti Barry Goldwater í öldungadeild þingsins.
Á þingferli sínum þurfti McCain að sæta harðri gagnrýni vegna aðkomu sinnar að spillingarmáli í nóvember 1991 sem tengdist Lincoln-bankanum. Charles Keating hafði veitt McCain og öðrum þingmönnum umtalsverða styrki og þegar Lincoln varð fyrir rannsókn vegna fjárglæpa voru þingmennirnir sagðir hafa óeðlileg afskipti af framgang málsins.
Siðanefnd Bandaríkjaþings hóf rannsókn á McCain, en hann er sagður hafa á þeim tíma breytt um stefnu í málinu. Á hann að hafa hætt að vera í varnarstöðu vegna málsins og viðurkennt að hafa hegðað sér ógætilega. Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði sýnt af sér slaka dómgreind í málinu en taldi ekki ástæðu til þess að fara lengra með málið.
Á þingferli sínum kom McCain í nokkur skipti til Íslands og var hann yfirlýstur stuðningsmaður áframhaldandi viðveru bandaríska varnarliðsins hér á landi.
Árið 2000 bauð McCain sig fram í forkosningum repúblikana vagna forsetakosninganna sama ár. Á þessum tíma var George W. Bush talinn sá útvaldi af ráðandi öflum innan flokksins, en McCain átti engu að síður góða möguleika eftir að hafa unnið í New Hampshire með 18 prósentustiga forskoti.
Kosningabaráttan varð heldur grimm og mikið um notkun neikvæðra auglýsinga. Nafnlausir tölvupóstar, einblöðungar og símhringingar til kjósenda sögðu að hann væri veikur á geði og að hann væri aðeins strengjabrúða víetnamskra yfirvalda.
Þá var því einnig dreift að hann átti að hafa eignast kynblandað barn utan hjónabands. McCain hafði hins vegar ásamt eiginkonu sinni ættleitt stúlku frá Bangladess og voru myndir af stúlkunni í sumum tilfellum notaðar í dreifingarefni.
Talið er að yfirlýsingar McCain um merki Suðurríkja Bandaríkjanna hafi ekki beint hjálpað honum, en hann sagði merkið vera tákn rasisma og þrælahalds.
Árið 2008 var McCain valinn frambjóðandi repúblikana í forkosningunum sama ár og Barack Obama varð frambjóðandi demókrata. Hann átti erfitt í baráttunni og mældist langt á eftir Obama og valdi óvænt Söru Palin, ríkisstjóra Alaska, sem varaforsetaefni flokksins.
Palin var erfiður samstarfsaðili og dró í efa hollustu Obama við Bandaríkin og sakaði hann um að vera vinalegur gagnvart hryðjuverkamönnum. Hún er talin hafa veitt ýmsum samsæriskenningum um Obama brautargengi svo sem að hann væri ekki réttmætur ríkisborgari og að vafi væri um trúartengsl hans. Aðkoma Palins að kosningabaráttunni var gerð að kvikmyndaefni í myndinni Game Change frá 2012 þar sem Julianne Moore leikur hana.
Á kosningafundi í Lakeville í Minnesota varði McCain Obama þegar eldri kona sagðist óttast að Obama yrði forseti og að hún hefði lesið að Obama væri arabi. McCain hristi höfuð sitt og sagði Obama góðan mann, en að þeir væru einfaldlega ósammála. Fundargestir púuðu og kölluðu að Obama væri lygari og hryðjuverkamaður.
Talið er að afstaða McCain hafi verið kostnaðarsöm, enda tapaði hann kosningunum. Talið er að þetta ósætti við Obama meðal sumra kjósenda hafi verið undiralda sem Donald Trump gat nýtt sér í sinni kosningabaráttu.
McCain og Donald Trump hefur ekki komið vel saman, en Trump sagði í kosningabaráttu sinni að McCain væri ekki stríðshetja heldur tapari (e. loser), þar sem hann hefði verið handsamaður í Víetnamstríðinu. Þá hefur McCain sagt Trump óhæfan til þess að gegna forsetaembættinu.
Í júlímánuði 2017 var til umfjöllunar í öldungadeild Bandaríkjaþings tillaga um að ógilda að hluta heilbrigðislöggjöf Obama. McCain sem var lengi vel ekki búinn að gefa upp afstöðu sína tilkynnti hana talningarmanni í þinghúsinu um miðja nótt á meðan atkvæðagreiðsla stóð enn yfir. Mörgum á óvart rétti hann fram hönd og gaf þumalinn niður og sagði „nei“.
Síðustu opinberu orð McCains um Trump var þegar hann tjáði New York Times að hann vildi ekki hafa Trump viðstaddan útför sína. McCain lést eftir erfiða baráttu við krabbamein og hætti hann meðferð nýverið.