Frans páfi vissi af ásökunum um kynferðisbrot fyrrverandi erkibiskupsins og kardínálans Theodore McCarrick í mörg ár áður en greint var frá þeim opinberlega. Þetta fullyrðir erkibiskupinn Carlo Maria Viganò í ítarlegu bréfi sem var birt fyrr í dag. New York Times greinir frá.
Á sama tíma og bréfið var birt var Frans páfi í opinberri heimsókn í Írlandi þar sem hann bað guð um fyrirgefningu vegna aðkomu kaþólsku kirkjunnar að fjölda kynferðisbrotamála sem hafa komið upp þar í landi.
Vatíkanið hefur ekki tjáð sig um ásakanirnar enn sem komið er.
Erkibiskupinn Carlo Maria Viganò fullyrðir að hópur valdamikilla manna í Vatíkaninu hafi tekið þátt í að hylma yfir ásakanir um kynferðislega misnotkun af hálfu McCarrick.
McCarrick var einn af æðstu embættismönnum kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum áður en Frans páfi samþykkti uppsögn hans fyrir um sléttum mánuði.
Uppsögnin kom í kjölfar þess að McCarrick var sakaður um að hafa beitt táning kynferðislegu ofbeldi er hann starfaði sem prestur í New York snemma á áttunda áratugnum.
Viganò segir að forveri Frans, Benedikt 16., hafi vitað af misnotkun McCarrick og refsað honum fyrir hana m.a. með því að banna honum að búa í prestskóla og að halda messur. Þá hafi Benedikt páfi sagt Frans frá því í júní árið 2013.
„Hann vissi það alla vega frá 23. júní 2013 að McCarrick væri raðnauðgari. Á þessum gríðarlega mikilvæga tímapunkti verður hann [Frans páfi] að viðurkenna mistök sín og að vera fyrstur til að setja gott fordæmi fyrir þá kardínála og biskupa sem hylmdu yfir kynferðisbrot McCarrick með því að segja af sér,“ skrifar Viganò meðal annars.
Í bréfinu, sem telur um 7.000 orð, gagnrýnir Viganò einnig kardínála sem aðhyllast hættulega „samkynhneigða stefnu“ innan Vatíkansins. Viganò kennir samkynhneigðum um hnignun kaþólsku kirkjunnar í mörgum löndum.
Sum fórnarlömb kynferðisbrota af hálfu presta og annarra innan kaþólsku kirkjunnar hafa gagnrýnt Viganò fyrir birtingu bréfsins og segja ásakanirnar sem þar koma fram vera hluta af valdatafli innan kirkjunnar.