Páfi biður um fyrirgefningu

Páfi segir engan ósnortinn af sögum fórnarlamba kynferðisbrotamanna kirkjunnar.
Páfi segir engan ósnortinn af sögum fórnarlamba kynferðisbrotamanna kirkjunnar. AFP

Francis páfi bað guð um fyrirgefningu vegna aðkomu kaþólsku kirkjunnar að fjölda kynferðisbrotamála sem komið hafa upp á Írlandi. Hann margítrekaði ósk sína um að réttlætinu yrði framfylgt. Þetta kom fram í ræðu hans á öðrum degi opinberrar heimsóknar hans á Írlandi, en þetta er í fyrsta skipti sem páfinn heimsækir Írland í 39 ár.

Þar sem páfi ávarpaði fólk í Knock Shrine í vesturhluta Írlands í morgun sagði hann engan ósnortinn af sögum fórnarlamba kynferðisbrotamanna innan kirkjunnar, sem hefðu verið rænd sakleysi sínu og skilin eftir með sársaukafullar minningar og opin sár. Páfi hitti í gær átta fórnarlömb kynferðisbrota, en hann sagðist fyllast viðbjóði yfir hegðun brotamanna innan kirkjunnar.

Búist er við að um 500 þúsund manns muni safnast saman í Phoenix Park í Dublin síðdegis í dag þar sem páfi mun messa, en um er að ræða lokahnykkinn í heimsókn hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert