Frans páfi neitar að tjá sig um efni bréfsins sem erkibiskupinn Carlo Maria Viganò birti í dag þar sem fullyrt er að páfinn hafi vitað af ásökunum um kynferðisbrot fyrrverandi erkibiskupsins og kardínálans Theodore McCarrick í mörg ár áður en greint var frá þeim opinberlega. McCarrick sagði af sér fyrir um mánuði.
„Ég segi ekki orð um þetta,“ sagði páfi við fjölmiðla í kvöld, rétt áður en hann steig upp í flugvél og hélt heim á leið til Rómar eftir tveggja daga opinbera heimsókn til Írlands.
Erkibiskupinn Viganò fullyrðir í bréfi sínu að hópur valdamikilla manna í Vatíkaninu hafi tekið þátt í að hylma yfir ásakanir um kynferðislega misnotkun af hálfu McCarrick.
Hann var sakaður um að hafa beitt táning kynferðislegu ofbeldi er hann starfaði sem prestur í New York snemma á áttunda áratugnum. McCarrick var einn af æðstu embættismönnum kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum áður en Frans páfi samþykkti uppsögn hans.