Ánægðir með nýjan viðskiptasamning

Donald Trump tekur í höndina á Ildefonso Guajardo Villarreal, viðskiptaráðherra …
Donald Trump tekur í höndina á Ildefonso Guajardo Villarreal, viðskiptaráðherra Mexíkó. Luis Videgaray Caso, núverandi utanríkisráðherra (í miðjunni), fylgist með. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Andres Manuel Lopez Obrador, verðandi forseti Mexíkó, eru báðir hæstánægðir með nýjan viðskiptasamning á milli landanna sem var undirritaður í dag.

„Þetta er stór dagur fyrir viðskipti. Þetta er mjög góður samningur fyrir báðar þjóðir,“ sagði Trump.

Hann bætti við að innan skamms muni viðræður um viðskiptasamning við Kanada hefjast.

Ráðgjafar Obrador segja að samningurinn muni hafa jákvæð áhrif á orku- og launamál í landinu.

„Við lítum á samninginn í dag sem stórt skref, vegna þess að hann dregur úr óvissu um efnahaginn og einnig tekur hann með í reikninginn áhyggjur sem samstarfsmenn verðandi forseta hafa haft,“ sagði Marcelo Ebrard, verðandi utanríkisráðherra Mexíkó.

Samninganefnd Bandaríkjanna og Mexíkó hefur unnið að samningnum undanfarnar vikur. Um er að ræða endurskoðun á NAFTA-samkomulaginu, sem er orðið 25 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert