Niðurstaða flugslysanefndar í Nepal á flugslysi sem kostaði 51 lífið er að rekja megi slysið til taugaáfalls flugstjórans eftir að hæfileikar hans höfðu verið dregnir í efa.
Í skýrslu flugslysanefndar, sem var lekið til fjölmiðla í dag, er fjallað um flugslysið 12. mars þegar farþegavél, sem var að koma frá höfuðborg Bangladess, Dhaka, brotlenti á flugvellinum í Katmandú, rann út af flugbrautinni og hafnaði á fótboltavelli þar sem kviknaði í flugvélinni.
Samkvæmt skýrslu flugslysanefndar var flugstjórinn hjá US-Bangla Airlines undir miklu álagi og í tilfinningalegu ójafnvægi í kjölfar þess að samstarfskona hans dró í efa hæfni hans sem góðs leiðbeinanda í starfi. Flugstjórinn réð ekki við vantraustið, brast ítrekað í grát og keðjureykti í flugstjórnarklefanum.
Flugstjórinn, sem áður var flugstjóri í flugher Bangladess og starfaði sem leiðbeinandi hjá flugfélaginu US-Bangla, talaði látlaust allt flugið og reyndi að vekja hrifningu hjá unga flugmanninum. Þetta varð til þess að flugmaðurinn missti einbeitinguna við stjórn flugvélarinnar og brotlenti henni.