Yfirvöld í eyjaklasanum Púertó Ríkó í Karíbahafi segja nú að 2.975 manns hafi látist af völdum fellibylsins Maríu, sem gekk yfir eyjuna í september í fyrra. Áður sögðu opinberar tölur til um að 64 íbúar eyjunnar hefðu látist og hafa yfirvöld á eyjunni sætt gagnrýni fyrir það, enda er það mat sérfræðinga að jafnvel hafi allt að 4.600 manns látist vegna fellibylsins.
Sú var niðurstaða rannsakenda við Harvard-háskóla, en nú hafa yfirvöld ákveðið að taka mark á mati frá George Washington-háskóla og nota þá tölu sem opinberan fjölda látinna.
Íbúar í eyjaklasanum, sem lýtur stjórn Bandaríkjanna, hafa átt erfitt uppdráttar frá því að fellibylurinn gekk yfir með ógnarkrafti í fyrra og ekki náð að færa innviði á borð við vegi og rafmagnsveitu í sama horf. Margir létust á eyjunum í kjölfar fellibylsins, vegna slæmrar heilsugæslu og skorts á rafmagni og hreinu vatni.
Fyrir liggur beiðni frá eyjaskeggjum til bandaríska þingsins, um að landsvæðið, þar sem 3,3 milljónir bandarískra ríkisborgara búa, fái 139 milljarða bandaríkjadala styrk til enduruppbyggingar innviða.