Hækka opinberar tölur yfir fjölda látinna

Tómir skór fyrir framan þinghúsið í San Juan á Púertó …
Tómir skór fyrir framan þinghúsið í San Juan á Púertó Ríkó fyrr í sumar. Stjórnvöld hafa loks uppfært opinberar tölur yfir fjölda látinna af völdum Maríu, úr 64 upp í 2.975. AFP

Yfirvöld í eyjaklasanum Púertó Ríkó í Karíbahafi segja nú að 2.975 manns hafi látist af völdum fellibylsins Maríu, sem gekk yfir eyjuna í september í fyrra. Áður sögðu opinberar tölur til um að 64 íbúar eyjunnar hefðu látist og hafa yfirvöld á eyjunni sætt gagnrýni fyrir það, enda er það mat sérfræðinga að jafnvel hafi allt að 4.600 manns látist vegna fellibylsins.

Sú var niðurstaða rannsakenda við Harvard-háskóla, en nú hafa yfirvöld ákveðið að taka mark á mati frá George Washington-háskóla og nota þá tölu sem opinberan fjölda látinna.

Íbúar í eyjaklasanum, sem lýtur stjórn Bandaríkjanna, hafa átt erfitt uppdráttar frá því að fellibylurinn gekk yfir með ógnarkrafti í fyrra og ekki náð að færa innviði á borð við vegi og rafmagnsveitu í sama horf. Margir létust á eyjunum í kjölfar fellibylsins, vegna slæmrar heilsugæslu og skorts á rafmagni og hreinu vatni.

Fellibylurinn María lagði innviði eyjunnar í rúst í september í …
Fellibylurinn María lagði innviði eyjunnar í rúst í september í fyrra og varð allt að 4.600 að bana. AFP

Fyrir liggur beiðni frá eyjaskeggjum til bandaríska þingsins, um að landsvæðið, þar sem 3,3 milljónir bandarískra ríkisborgara búa, fái 139 milljarða bandaríkjadala styrk til enduruppbyggingar innviða.

Umfjöllun BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert