Gríska lögreglan hefur handtekið þrjá félaga sjálfstætt starfandi hjálparsamtaka (NGO), Emergency Response Centre International (ERCI), sem grunaðir eru um að hafa aðstoðað flóttafólk við að komast inn til landsins með ólögmætum hætti.
Fólkið var handtekið í gær á eyjunni Lesbos en þangað koma margir þeirra sem koma frá Tyrklandi að landi. Þúsundir flóttamanna hafast þar við erfiðar aðstæður við í yfirfullum flóttamannabúðum á vegum grískra yfirvalda.
Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að upplýst hafi verið að fullu um starfsemi skipulagðra glæpasamtaka sem kerfisbundið aðstoðuðu útlendinga við að koma með ólöglegum hætti inn í landið.
Félagar í ERCI-samtökunum voru í sambandi við flóttamenn á samfélagsmiðlum og aðstoðuðu þá markvisst við að koma til Grikklands með ólöglegum hætti allt frá árinu 2015, segir enn fremur í tilkynningu.
Lögreglan segir að fólkið hafi hlustað ólöglega á samskipti grísku strandgæslunnar og Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, til þess að vara flóttafólkið við þegar skip stofnananna voru á ferðinni. Alls hafi sex Grikkir og 24 útlendingar blandast inn í málið.
Meðal þeirra handteknu er Sarah Mardini, 23 ára sýrlenskur flóttamaður sem er við nám við Bard-háskólann í Berlín. Systir hennar, Yusra, er góðgerðarsendiherra flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, en hún tók þátt í liði flóttafólks á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016.
Systurnar öðluðust heimsfrægð árið 2015 þegar þær syntu með fleka flóttafólks að landi eftir að leki kom að flekanum. 18 voru um borð auk þeirra.
Sundþjálfari Yusra, Sven Spannekrebs, segir ásakanir grísku lögreglunnar úr lausi lofti gripnar. Hann hafi nýlega verið á Lesbos og séð hvað sjálfboðaliðarnir sinntu góðu og þörfu starfi þar.
Spannekrebs segir að Mardini og Sean Binder, sem einnig er í haldi lögreglu, hafi langa reynslu af sjálfboðastarfi fyrir ERCI og hafi aldrei tekið þátt í ólöglegu athæfi líkt og yfirvöld saka þau um.
Hann gerir lítið úr ásökunum lögreglu um að þau hafi hlustað talstöðvarsamskipti með ólöglegum hætti. Slík samskipti fari fram fyrir opnum tjöldum og allir sem vilji geti hlustað á þau.
Þegar sem flestir flóttamenn leituðu skjóls í Evrópu komu um fimm þúsund flóttamenn að landi á Lesbos á degi hverjum.
Stærstu flóttamannabúðirnar á Lesbos heita Moria og hýsa 8.300 manns. Það eru þrefalt fleiri en rými er fyrir og samkvæmt upplýsingum frá hjálparsamtökum eru aðstæður þar skelfilegar.