Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að binda enda á fjárveitingar til stofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir palestínskt flóttafólk. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir að ástand stofnunarinnar sé svo slæmt að það sé óbætanlegt.
Um 30% af fjármögnun Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar (e. UN Relief and Works Agency), sem var sett á fót árið 1949, kemur frá Bandaríkjunum. Árið 2016 lagði Evrópusambandið til næsthæstu upphæðina, sem var samt sem áður helmingi lægri en framlag Bandaríkjanna. Stofnunin veitir yfir fimm milljónum palestínskra flóttamanna ýmsan stuðning og aðstoð.
Í janúar greindi utanríkisráðuneytið frá því að heildarfjármagnið í ár til stofnunarinnar yrði 120 milljónir dollarar. 60 milljónir dollara myndu renna til Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar, en 65 milljónir dollara, eða sem nemur 6,6 milljörðum íslenskra króna, verður „ráðstafað í nánustu framtíð“. Nú hefur komið í ljós að 60 milljónir dollara verða greiddir, en ekkert umfram það.
Stjórnvöld í Palestínu hættu öllum samskiptum við stjórnvöld í Bandaríkjunum eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels í fyrra. Stjórnvöld í Palestínu vara við því að ákvörðunin um að hætta allri fjárhagslegri aðstoð við flóttamenn frá Palestínu muni draga enn frekar úr möguleika á friði fyrir botni Miðjarðarhafs.