Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að leggja til að hætt verði að hnika klukkunni til á vorin og á haustin, eftir að skoðanakönnun á meðal íbúa aðildarríkja ESB leiddi í ljós að yfir 80% þeirra eru á móti fyrirkomulaginu, sem gjarnan er kallað „sumartími“ (e. daylight saving time) og var tekið upp árið 1980.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, segir að milljónir hafi þá trú að í framtíðinni ætti sumartíminn að vera allt árið – og að það væri það sem myndi gerast.
Til þess að tillagan nái fram að ganga þurfa bæði stjórnvöld í 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins og meirihluti þingmanna Evrópuþingsins í Strassborg að samþykkja hana.
Innan Evrópusambandsins hefur klukkunni verið hnikað til um klukkustund frá árinu 1980, fram um klukkustund á síðasta sunnudegi marsmánaðar og aftur um klukkustund á síðasta sunnudegi októbermánaðar og var hvatinn að þessu fyrst og fremst sá að með þessu móti myndi sparast umtalsverð orka, þar sem fleiri bjartar stundir á vökutíma minnkuðu þörf á því að lýsa upp híbýli Evrópubúa.
Framkvæmdastjórnin segir að gögn sýni ekki fram á að þessar vonir hafi gengið eftir og segir einnig að það séu engar áreiðanlegar sannanir fyrir því að klukkubreytingarnar hafi dregið úr tíðni umferðarslysa.
Enn hefur ekki verið tilkynnt hvaða breytingar það eru nákvæmlega sem framkvæmdastjórnin leggur til, en einn kostanna sem velt er upp í samráðsskýrslu um málið er það að leyfa hverju aðildarríki að velja hvort það vilji vera á „sumartíma“ eða „vetrartíma“.
Í Evrópuþingsályktun segir að mikilvægt sé að viðhalda sameinaðri tímaskipan innan Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnin mun vera sömu skoðunar, að því er fram kemur frétt BBC um málið. Það að aðildarríkin færu hvert í sína áttina gæti nefnilega haft neikvæðar efnahagslegar afleiðingar, að mati framkvæmdastjórnarinnar.
Innan Evrópusambandsins eru þrjú ríki sem eru með sama tíma og við Íslendingar, þ.e. GMT, Greenwich Mean Time. Það eru Bretar, Írar og Portúgalar. 17 aðildarríki eru svo á Mið-Evróputíma, sem er GMT +1 klst. og átta ríki eru á Austur-Evróputíma, sem er GMT +2 klst.