Palestínskir ráðamenn fordæma þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að binda enda á fjárveitingar til stofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir palestínskt flóttafólk. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir að ástand stofnunarinnar sé svo slæmt að það sé óbætanlegt.
Um 30% af fjármögnun Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar (e. UN Relief and Works Agency), sem var sett á fót árið 1949, kemur frá Bandaríkjunum. Árið 2016 lagði Evrópusambandið til næsthæstu upphæðina, sem var samt sem áður helmingi lægri en framlag Bandaríkjanna. Stofnunin veitir yfir fimm milljónum palestínskra flóttamanna ýmsan stuðning og aðstoð.
Talsmaður Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, var ómyrkur í máli í morgun. „Þetta er svívirðileg árás gegn Palestínumönnum.“ sagði talsmaður forsetans.
Palestínumenn hafa áður gagnrýnt Bandaríkin fyrir að vera of hliðholl Ísraelum, sérstaklega eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels í fyrra.
Palestínsk yfirvöld hættu þá öllum samskiptum við stjórnvöld í Bandaríkjunum. Stjórnvöld í Palestínu vara við því að ákvörðunin um að hætta allri fjárhagslegri aðstoð við flóttamenn frá Palestínu muni draga enn frekar úr möguleika á friði fyrir botni Miðjarðarhafs.