Donald Trump Bandaríkjaforseti hótar að útiloka Kanada frá nýjum viðskiptasamningi ríkja í Norður-Ameríku (NAFTA).
Viðræðum samninganefnda Bandaríkjanna og Kanada um nýjan viðskiptasamning milli ríkjanna lauk án niðurstöðu í gær eftir fjögurra daga formlegar viðræður.
Trump segir að NAFTA-samningurinn hafi á sínum tíma verið versti samningurinn sem Bandaríkin hafi átt hlutdeild að.
„Það er engin pólitísk þörf á að Kanada verði hluti af nýjum NAFTA-samningi. Ef við náum ekki að komast að sanngjarnri niðurstöðu eftir áratuga misnotkun af hálfu Kanada, verður Kanada einfaldlega að vera úti,“ tísti Trump í dag.
Trump er jafnframt þeirrar skoðunar að bandaríski þingið eigi ekki að skipta sér af samningaviðræðunum. „Annars eyði ég NAFTA í heild sinni og við verðum betur sett þannig,“ tístir forsetinn.
There is no political necessity to keep Canada in the new NAFTA deal. If we don’t make a fair deal for the U.S. after decades of abuse, Canada will be out. Congress should not interfere w/ these negotiations or I will simply terminate NAFTA entirely & we will be far better off...
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 1, 2018