Ferðamönnum sem heimsóttu Spán í júlí fækkaði í fyrsta skiptið í tæpan áratug. Útlit er fyrir að evrópskir sóldýrkendur hafi snúið sér að ódýrari áfangastöðum á borð við Tyrkland og Túnis. Fréttastofa AFP greinir frá þessu.
Ferðaþjónusta er með um 10% af landsframleiðslu á Spáni. Árið 2017 var Spánn í öðru sæti yfir mest heimsóttu löndin en um 82 milljónir fóru til Spánar það árið. Fimmta árið í röð voru slegin met í heimsóknum til landsins.
Heimsóknum til Spánar hefur fækkað um 4,9% síðan í júlí 2016, en um 22 milljónir heimsóttu landið árið 2016. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem heimsóknum til Spánar fækkar í umsvifamesta sumarmánuðinum síðan árið 2009.
Bretum sem heimsóttu Spán 2017 fækkaði um 5,6%, en ástæða þess gæti verið að dýrara er fyrir Breta að ferðast til evrusvæða. Þrátt fyrir það voru flestir ferðamannanna á Spáni í júlí breskir. Fyrstu sjö mánuði ársins fjölgaði erlendum ferðamönnum um 0,3% í 47 milljónir, en ferðamönnum fjölgaði mjög árin 2017 og 2016. Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, gaf lítið fyrir þessar nýju tölur og sagði að enn væru heimsóknatölur „sögulega háar“.
Talsmenn ferðaþjónusturisans Thomas Cook greindu nýlega frá því að bókanir til Tyrklands hefðu aukist um 63% síðan í fyrra, en Antalya er nú vinsælasti flugvöllur breskra ferðamanna. Einnig var sagt að fyrirtækið hefði flutt starfsemi sína austur frá Spáni til Tyrklands, Túnis og annarra Miðjarðarhafslanda, þar sem það sé hagstæðara en að hafa þjónustu á Spáni.