Síðustu logarnir voru varla slokknaðir og reyk enn lagði frá rústum brasilíska þjóðminjasafnsins er ásakanir um ábyrgð á brunanum hófust. Hundruð mótmælenda söfnuðust í morgun saman fyrir utan hlið safnsins, kröfðust þess að fá að sjá skemmdirnar og hvöttu stjórnvöld til að endurbyggja safnið. Brasilíska lögreglan hélt mannfjöldanum fjarri með piparúða, táragasi og kylfum að sögn LA Times.
„Tjónið er óbætanlegt. Menningin syrgir. Þjóðin syrgir,“ skrifaði menningarmálaráðherra Brasilíu, Sergio Sa Leitao, á Twitter í dag og forseti landsins, Michel Temer, sagði þetta „sorgardag fyrir alla Brasilíumenn“.
„Tvö hundruð ára vinna, rannsóknir og þekking hafa tapast,“ sagði í yfirlýsingu frá forsetanum. Þá hvatti Marcelo Crivella, borgarstjóri Rio de Janeiro, til þess á Instagram að safnið yrði endurbyggt.
Forstjóri listasafnsins segir hluta þeirra muna sem voru í safninu ónýtan. Ekki sé þó enn mögulegt að leggja mat á hversu mikið tjónið sé.
Á meðal muna í safninu voru egypskir og grísk-rómverskir listmunir úr fornöld, auk 12 þúsund ára beinagrindar konu, Luziu, sem er sú elsta sem hefur fundist í Ameríku.
Einnig var í safninu stærsti loftsteinn sem hefur uppgötvast í Brasilíu, 5,3 tonna þungur, og beinagrind risaeðlu.
Fjölmarga muni sem spanna fjögurra alda tímabil, allt frá því Portúgalar komu til landsins á 14. öld þar til brasilíska lýðveldið var stofnað 1889, var þar einnig að finna, en portúgalska konungsfjölskyldan bjó eitt sinn í húsinu.
Upptök eldsins, sem kviknaði í gærkvöldi, eru enn ekki ljós. Gagnrýni á hrörlega innviði landsins og fjárlagahalla heyrðist hins vegar fljótt eftir að fréttir af eldsvoðanum bárust, en þingkosningar fara fram í Brasilíu í október.
„Það leysir engan vanda að gráta yfir þessu,“ sagði Alexander Kellner, forstjóri safnsins, við fjölmiðla á vettvangi. „Við verðum að gera eitthvað.“
Sagði hann safnið nýlega hafa fengið samþykkt fjárlög til að uppfæra eldvarnarkerfi hússins. „Þetta er kaldhæðnislegt. Við erum komin með peningana en féllum á tíma,“ sagði Kellner.
Talsmaður slökkviliðsins, Roberto Robadey, sagði slökkvistarf hafa gengið illa í byrjun af því að tveir brunahanar sem næstir voru safninu virkuðu ekki. Þess í stað urðu dælubílar að sækja vatn í stöðuvatn í nágrenninu.
Það mátti sjá tár á hvörmum nokkurra þeirra mótmælenda sem komu saman við safnhliðið í dag. „Þessi eldur er það sem brasilískur stjórnmálamenn eru að gera þjóðinni,“ sagði framhaldsskólakennarinn Rosana Hollanda og grét. „Þeir eru að brenna sögu okkar. Þeir eru að brenna drauma okkar.“
Roberto Leher, rektor ríkisháskólans í Rio de Janeiro, sem safnið tilheyrir, sagði þörf hafa verið á uppfærslu á raf- og vatnslögnum safnsins, sem og nýju eldvarnarkerfi.
„Við vissum öll að byggingin var viðkvæm,“ sagði Leher og kvað starfsmenn safnsins hafa unnið með slökkviliði að því að draga úr hættunni.
„Við eld á þessum skala sýndi veruleikinn hins vegar að þörf væri á kerfislægri íhlutun.“
Spurður hvers vegna sambærilegar hörmungar kæmu ekki upp í menningarstofnunum í öðrum löndum sagði Kellner: „Spyrjið ykkur að því. Þetta er mjög góð spurning.“