Colin Kaepernick, fyrrverandi leikmaður ruðningsliðsins San Francisco 49ers, hefur verið valinn til að vera andlit nýrrar auglýsingaherferðar íþróttavörurisans Nike. Tilefni herferðarinnar er 30 ára afmæli slagorðsins „Just Do It“.
Kaepernick, sem olli miklu pólitísku fjaðrafoki eftir að hann kraup á meðan að þjóðsöngurinn var leikinn en neitaði að standa með hendur á brjósti, líkt og hefð er fyrir, til að mótmæla kynþáttamisrétti, hefur ekki leikið í NFL-deildinni síðan snemma á síðasta ári.
Kaepernick, sem er þrítugur, hefur höfðað mál gegn NFL og segist hafa verið settur út í kuldann af yfirmönnum liðsins vegna hegðunar sinnar.
Nýju Nike-auglýsingarnar voru frumsýndar við upphaf nýrrar leiktíðar í NFL á fimmtudaginn. Þar sést Kaepernick ásamt slagorðinu: „Trúið á eitthvað. Jafnvel þótt það þýði að þið þurfið að fórna öllu“.
ESPN greindi frá því að Nike hefði haft leikmanninn áfram á launaskrá meðan á fjaðrafokinu stóð undanfarin tvö ár. Hann skrifaði upphaflega undir styrktarsamning við fyrirtækið árið 2011.
„Við teljum að Colin sé einn af þeim íþróttamönnum sinnar kynslóðar sem hafi veitt öðrum hvað mestan innblástur; notað mikilvægi íþróttarinnar til að hjálpa heiminum fram veginn,“ sagði Gino Fisanotti, varaforseti Nike í Norður-Ameríku.