Starfsmannastjóri Hvíta hússins, John Kelly, er sagður hafa orðið svo hneykslaður og reiður á hegðun Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, að hann kallaði hann „hálfvita“ í samtölum við annað starfsfólk. Þá kvartaði hann yfir því að vera staddur á „vitleysingahæli“. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók um forsetann eftir rannsóknarblaðamanninn og rithöfundinn Bob Woodward, en hún nefnist Fear.
Í bókinni er Trump sagður vera með ofsóknaræði á svo háu stigi vegna Rússa-rannsóknarinnar sem nú stendur yfir að hann eigi erfitt með að sinna starfi sínu. Bókin, sem beðið hefur verið eftir af mikilli eftirvæntingu, hefur enn ekki verið verið gefin út formlega en Washington Post hefur hana undir höndum og hefur unnið upp úr henni fréttir.
Woodward hefur starfað sem blaðamaður á Washington Post frá árinu 1971 og er nú aðstoðarritstjóri. Hann er þekktastur fyrir uppljóstranir sínar í Watergate-málinu, ásamt Carl Bernstein, sem urðu til þess að Richard Nixon sagði af sér forsetaembættinu árið 1974.
Í bókinni er talað um að starfsfólk Hvíta hússins sé á barmi taugaáfalls og er það mjög í samræmi við lýsingar Michaels Wolffs í Fire and Fury, sem kom út fyrr á þessu ári. En ætla má að vegna þess hve virtur blaðamaður Woodward er og hversu mikið vægi hann hefur muni uppljóstranir í bók hans koma sér enn verr fyrir forsetann en þær sem komu fram í Fire and Fury.
Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sarah Sanders, var að sjálfsögðu tilbúin með fréttatilkynningu vegna útgáfu bókarinnar og er hún sögð uppfull af skálduðum sögum sem byggist að miklu leyti á frásögnum fyrrverandi óánægðra starfsmanna. Tilgangurinn sé eingöngu að láta forsetann líta illa út.
Woodward segir bókina byggða á yfir hundrað klukkutímum af samtölum við beina þátttakendur í atburðarásinni. Heimildamenn hans eru þó allir nafnlausir.
Í bókinni kemur fram að Trump geri ítrekað lítið úr rágjöfum sínum þegar þeir heyri ekki til. Hann hafi til að mynda hæðst að þjóðaröryggisráðgjafa sínum. Þá hafi hann kallað Reince Priebus, forvera Kellys í starfi starfsmannastjóra, „litla rottu sem þeyttist út um allt“. Jeff Sessions, dómsmálaráðherra landsins, mun hann hafa kallað „andlega skertan“. Hann væri bara heimskur suðurríkjamaður sem hefði ekki getað starfað sem lögmaður í Alabama. Sumt af þessu á Trump að hafa sagt beint við fólk en í öðrum tilfellum við samstarfsfélaga.
Aðeins nokkrum dögum eftir að öldungadeildarþingmaðurinn John McCain féll frá mun Trump hafa sagt það í matarboði með hátt settu starfsfólki að hann hefði verið gunga sem hefði tekist að fá sig lausan á undan öðrum þegar hann var stríðsfangi í Víetnam.
Varnarmálaráðherra landsins, Jim Mattis, mun hafa leiðrétt Trump og bent honum á að McCain hefði þvert á móti neitað að fara úr búðunum til að sýna samstöðu með öðrum stríðsföngum.
Í bókinni er einnig komið inn á að forsetinn sé svo illa að sér í alþjóðamálum að það sé mikið áhyggjuefni. Þolinmæði varnarmálaráðherrans mun nánast vera á þrotum en hann á að hafa sagt að skilningur forsetans sé á við 10 ára barn.
Háttsettir embættismenn eru sagðir leggja á ráðin sín á milli til að koma í veg fyrir að forsetinn framkvæmi einhverja vitleysu. Þeir fjarlægi jafnvel skjöl til að koma í veg fyrir að Trump fái ákveðnar upplýsingar eða geti sent þær frá sér.
Í bókinni er tekið dæmi um það þegar efnavopnum var beitt af stjórnarhernum í Sýrlandi árið 2017. Þá hafi forsetinn sagt að Bandaríkin ættu að drepa Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. „Drepum hann, fjandinn hafi það. Förum inn. Drepum heilan helling af þeim,“ á Trump að hafa sagt. Mattis mun hafa lofað að brugðist yrði strax við, en hann hafi látið hugmyndina um aftökuna hverfa mjög laumulega.