Fleiri sýklar á bökkum en klósettum

Ferðamenn á flugvelli í Indónesíu.
Ferðamenn á flugvelli í Indónesíu. AFP

Plastbakkarnir sem ferðamenn setja muni sína í áður en þeir ganga í gegnum öryggishlið á flugvöllum hafa að geyma ýmsar tegundir af sýklum, þar á meðal þær sem valda kvefi.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar vísindamanna við háskólann í Nottingham á Englandi og hjá finnsku heilbrigðis- og velferðarstofnuninni, að sögn The New York Times.

Þeir skoðuðu yfirborð plastbakka á flugvellinum í Helsinki í Finnlandi þegar mest var að gera veturinn 2016 og fundu þar svokallaðan nasavírus en venjulegt kvef á upptök sín þar. Einnig fundu þeir inflúensu A.

Þessir sýklar fundust á helmingi bakkanna, sem er yfir helmingi meira en á öllum yfirborðsflötum sem þeir rannsökuðu. Enginn af þessum vírusum fannst á klósettunum á flugvellinum, að sögn vísindamannanna.

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu BMC Infectious Diseaes. Þær gætu hjálpað til í baráttunni gegn útbreiðslu smitsjúkdóma um heim allan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert