Musk sakar kafara aftur um barnaníð

Elon Musk.
Elon Musk. AFP

Elon Musk, stofnandi og forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, hefur aftur beint spjótum sínum að breskum kafara sem hann sakaði í sumar um að hafa brotið kynferðislega gegn börnum. 

Kafarinn, Vernon Unsworth, átti þátt í því að bjarga 12 taílenskum unglingum sem sátir fastir í helli sem var að fyllast af vatni. Musk sendi blaðamanni tölvupóst þar sem hann sagði að Unsworth væri „barnanauðgari“.

Lögmaður Unsworths segir að þetta eigi sér enga stoð í raunveruleikanum, að því er segir í frétt á vef BBC.

Breski kafarinn Vernon Unsworth.
Breski kafarinn Vernon Unsworth. AFP

Musk baðst í sumar afsökunar á því að hafa kallað Unsworth barnaníðing. Þeim lenti fyrst saman eftir að Musk bauðst til að senda smákafbát til að aðstoða við leitina að taílensku drengjunum. 

Unsworth sagði í samtali við CNN að kafbáturinn væri bara leið fyrir Musk til að vekja athygli á sjálfum sér og þetta myndi aldrei ganga upp. 

Musk svaraði með því að birta færslur á Twitter þar sem hann sakaði breska kafarann um barnaníð án þess að leggja fram nokkrar sannanir.

Musk eyddi færslunum í júlí, en í síðustu viku virtist hann endurtaka leikinn. Hann birti færslu á Twitter þar sem hann furðaði sig á því hvers vegna Unsworth hefði ekki farið í mál eftir að kafarinn hafði látið þau ummæli falla að hann væri að íhuga að grípa til lagalegra úrræða gegn Musk.

Í tölvupósti sem Musk sendi blaðamanni Buzzfeed, Ryan Mac, gekk auðjöfurinn lengra. Hann bað blaðamanninn að hafa samband við fólk sem hann þekkti í Taílandi til að komast að því sem væri að gerast í raun og veru í landinu og hætta að verja fólk sem nauðgaði börnum. 

Hann gaf í skyn að Unsworth, sem er 63 ára gamall, hefði bæði heimsótt og búið á Taílandi í áratugi. Hann hefði nýverið flutt til Chiang Rai í norðurhluta landsins til að ganga að eiga 12 ára gamla stúlku.

„Þetta er ekki staður sem þú ferð til að skoða hella, heldur til að gera eitthvað allt annað,“ skrifaði Musk. „Chiang Rai er þekkt fyrir mansal á börnum í kynferðislegum tilgangi.“ Hann bætti við að hann vonaði að Unsworth myndi fara í mál við sig út af þessu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert