Segir starfsliðið grafa undan Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti á í vök að verjast þessa dagana.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á í vök að verjast þessa dagana. AFP

Háttsettir embættismenn innan ríkisstjórnar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta eru svo uggandi yfir „óútreiknanlegri“ og „siðlausri“ hegðun forsetans að þeir vinna stöðugt að því að grafa undan honum.

Þetta skrifaði ónafngreindur „háttsettur embættismaður“ í grein í The New York Times.

„Trump forseti er að ganga í gegnum meiri prófraun sem forseti en nokkur annar nútímaleiðtogi í Ameríku hefur gengið í gegnum,“ skrifaði hann í greininni undir fyrirsögninni „Ég er hluti af andspyrnuhreyfingunni í ríkisstjórn Trumps“.

„Prófraunin - sem hann tilgreinir ekki að fullu - snýst um það að margir af háttsettum embættismönnum í ríkisstjórn Trumps vinna af kostgæfni innanbúðar við að skemma fyrir hluta af því sem hann ætlar sér og fyrir hans verstu tilhneigingum,“ skrifaði hann.

„Ég veit þetta því ég er einn af þeim.“

Hann lýsti forsetaembættinu sem tvíhliða. Trump segði einn hlut og starfslið hans reyndi meðvitað að gera annað í staðinn, til dæmis þegar kemur að meintu dálæti hans á einræðisherrum.

Hann bætti við að starfsmennirnir reyndu að fjarlægja sig frá „hvatvísum, fjandsamlegum, smásálarlegum og gagnslausum“ stjórnunarstíl Trumps.

Greinin virðist í fullu samræmi við það sem kemur fram í væntanlegri bók blaðamannsins Bobs Woodwards en kaflar úr henni voru birtir í gær.

Fordæma birtingu greinarinnar

Trump hefur gagnrýnt The New York Times fyrir að birta greinina og segir blaðið óheiðarlegt. „Þeim líkar ekki við Donald Trump og mér líkar ekki við þá,“ sagði hann. „Ef New York Times, sem er vonlaust, birtir ritstjórnargrein sem er nafnlaus, trúið þið því, nafnlaus – ég meina huglaus – huglaus ritstjórnargrein – þá erum við að vinna gott starf,“ sagði hann. 

Sarah Sanders, talskona Hvíta hússins, sagði greinina „ömurlega, ófyrirleitna og uppfulla af eigingirni“ og fordæmdi blaðið fyrir birtinguna.

„Næstum 62 milljónir manna kusu Donald Trump sem forseta árið 2016,“ sagði hún. „Enginn þeirra kaus huglausan, nafnlausan heimildarmann hjá hinu vonlausa New York Times.“

Trump svarar spurningu blaðamanns í Hvíta húsinu í dag.
Trump svarar spurningu blaðamanns í Hvíta húsinu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert