Segist ekki hafa viljað drepa Assad

Trump segir það ekki einu sinni hafa verið íhugað að …
Trump segir það ekki einu sinni hafa verið íhugað að drepa Assad. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitar því að hann hafi viljað láta drepa Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, eftir að stjórnarherinn beitti efnavopnum á almenna borgara þar í landi í apríl á síðasta ári. AFP-fréttastofan greinir frá.

Það er fullyrt í nýrri bók blaðamannsins Bobs Woodwards um forsetann, Fear, að Trump hafi sagt að Bandaríkin ættu að drepa Sýrlandsforseta. „Drepum hann, fjandinn hafi það. Förum inn. Drepum heilan helling af þeim,“ á forsetinn að hafa sagt við ráðgjafa sína.

Bashar al-Assad í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð.
Bashar al-Assad í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð. AFP

Jim Matt­is, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, mun þá hafa lofað að brugðist yrði strax við, en hann hafi látið hug­mynd­ina um af­tök­una hverfa mjög laumu­lega.

Trump sagði á blaðamannfundi í Hvíta húsinu í dag að þetta hefði aldrei gerst. „Þetta var ekki einu sinni íhugað,“ sagði hann á fundinum. „Þessi bók hefur enga þýðingu. Þetta er eingöngu skáldskápur,“ sagði forsetinn jafnframt. Þá benti hann á að Mattis og John Kelly, starfsmannstjóri Hvíta hússins, hefðu báðir neitað að atburðarás, eins og henni er lýst í bókinni, hefði átt sér stað.

Woodward segir bókina byggða á 100 klukkutíma samtölum við beina þátttakendur í atburðarásinni í Hvíta húsinu frá því Trump tók við völdum. Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins sagði í yfirlýsingu sem lesin var upp í gær að bókin væri uppfull af skálduðum sögum og að miklu leyti byggð á frásögnum ósáttra fyrrverandi starfsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert