Persson: Rétt að leita stuðnings SD

Ulf Kristersson, leiðtogi Moderaterna, er forsætisráðherraefni sænska hægrisins.
Ulf Kristersson, leiðtogi Moderaterna, er forsætisráðherraefni sænska hægrisins. AFP

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Sósíaldemókrata, telur rétt að Ulf Kristersson, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna, leiti til Svíþjóðardemókrata að þingkosningum loknum og sækist eftir stuðningi þeirra við myndun ríkisstjórnar hægribandalagsins, Alliansen. Þetta kom fram í viðtali við forsætisráðherrann þaulsætna við Expressen í fyrradag.

Skorist hann undan því gæti farið svo að Moderaterna verði brátt minni en Svíþjóðardemókratar og glati stöðu sinni sem annar af burðarflokkum sænskra stjórnmála. Moderaterna og Svíþjóðardemókratar mælast álíka stórir í könnunum, með um 17% hvor, en Sósíaldemókratar eru stærstir með um 25% fylgi.

Svíar ganga til kosninga á sunnudag og er Ulf Kristersson sá stjórnmálamaður sem nýtur mests trausts samkvæmt könnunum. Um 35 prósent Svía segjast bera trausts til hans, nærri helmingi fleiri en hyggjast kjósa flokkinn.

Kristersson er annar tveggja sem þykja hafa raunhæfa möguleika á verða forsætisráðherra Svíþjóðar eftir kosningarnar á sunnudag; hinn er Stefan Löfven, sitjandi forsætisráðherra og formaður Sósíaldemókrata.

Lægri laun fyrir ófaglærða

Kristersson var áður félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Fredriks Reinfeldts kjörtímabilið 2010-14 en hann tók við embætti formanns fyrir um ári. Hann þykir að mörgu leyti íhaldssamari en Reinfeltd, sem færði flokkinn nær miðjunni og tók að nota nafnið Nya Moderaterna (Nýi hófsami flokkurinn) til marks um breyttar áherslur, nafn sem flokkurinn notar enn.

Meðal þeirra hugmynda sem flokkurinn hefur varpað fram nú í aðdraganda kosninga er innleiðing svokallaðra inngangsstarfa (s. inträdesjobb). Tillagan gengur út á að atvinnurekendur geti ráðið innflytjendur sem eru nýfluttir til landsins og ungt fólk undir 23 ára aldri sem ekki hefur lokið framhaldsskóla í störf á 70% af kjarasamningsbundnum launum, að hámarki 14.700 sænskar krónur á mánuði (um 175.000 íslenskar).

Carl Bildt, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra hefur stutt Ulf Kristersson …
Carl Bildt, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra hefur stutt Ulf Kristersson í kosningabaráttunni. Þeir félagar voru í Stokkhólmsháskóla í dag. AFP

Þetta eru, að sögn Moderaterna, þeir hópar samfélagsins sem eiga erfiðast með að finna vinnu. Á móti skuli aðeins 70% af vinnutíma fara í hefðbundin störf en 30% í starfsþjálfun og sænskukennslu, ef á þarf að halda.

Auk þess að borga lægri laun yrðu atvinnurekendur einnig undanskildir tryggingargjaldi og öðrum launatengdum gjöldum, sem eru ærið há í Svíþjóð, 31,42% af launum. Hugmyndin nýtur stuðnings annarra flokka í hægribandalaginu (Alliansen), Frjálslyndra, Kristilegra demókrata og Miðflokksins.

Sænska alþýðusambandið (LO) hefur farið hörðum orðum um hugmyndina. Hún brjóti gegn því sem Svíar kalla sænska módelið, og við Íslendingar norræna módelið, sem meðal annars gengur út á að samið sé um laun milli sambanda launafólks og atvinnurekenda. Þá verði fólk að geta lifað á launum sínum.

Atvinna skal borga sig

Moderaterna hefur í kosningabaráttunni lagt áherslu á að það eigi að borga sig að vinna. Of litlu muni á tekjum þeirra sem vinna og þeirra sem þiggi bætur. Ljóst er að fyrirhuguð inngangslaun verða síst til að bæta úr því, nema bótafjárhæðir lækki þeim mun meira. Flokkurinn vill lækka tekjuskatt, mest í lægsta skattþrepinu, þannig að fólk á meðallaunum fái 500 sænskar krónur (um 6.000 íslenskar) útborgaðar til viðbótar. Á móti verður virðisaukaskattur á mat hækkaður úr 12 prósentum í 14.

Flokkurinn boðar stærstu umbætur á velferðarkerfinu í 40 ár. Setja skuli þak á þær bætur sem einstaklingar geta fengið og setja skýrari reglur um atvinnuleysisbætur. Þá sé mikilvægt að auðvelda þeim sem detta út af vinnumarkaði vegna veikinda að snúa aftur. 

Moderaterna vilja nýja ríkisstjórn undir forystu Ulfs Kristersson. Til þess …
Moderaterna vilja nýja ríkisstjórn undir forystu Ulfs Kristersson. Til þess gæti flokkurinn þurft að leita á náðir Svíþjóðardemókrata. mbl.is/Alexander

Moderaterna hefur keyrt kosningabaráttuna á mikilvægi þess að Svíar fái nýja ríkisstjórn, undir forystu Ulfs Kristerssons. Á sama tíma hefur flokkurinn hingað til hafnað samstarfi við þjóðernisflokkinn Svíþjóðardemókrata. Ef úrslit kosninganna verða í samræmi við nýjustu kannanir er þó ljóst að annað hvort loforðið verður undan að láta.

Í nýjustu könnunum fær bandalag hægriflokka, Alliansen, 38,1% fylgi en vinstriflokkarnir þrír, Sósíaldemókratar, Umhverfisflokkurinn og Vinstriflokkurinn, 41,8%. Annað fylgi fer að mestu til Svíþjóðardemókrata, sem mælast með 17,2%.

Þetta er í raun svipuð staða og nú er uppi þar sem ríkisstjórn Sósíaldemókrata og Umhverfisflokksins starfar þrátt fyrir að vinstriflokkarnir hafi minnihluta þingsæta, í krafti þess að flokkarnir hafa fleiri sæti en hægriblokkin og hvorug hefur viljað starfa með Svíþjóðardemókrötum. Ætli flokkurinn að halda þeirri afstöðu til streitu gæti hann þurft að sætta sig við að stjórnarráðið í Rosenbad verði enn einu sinni sem oftar skipað jafnaðarmönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert