Fellibylurinn Flórens nálgast Bandaríkin

Fellibylurinn Florence nálgast austurströnd Bandaríkjanna.
Fellibylurinn Florence nálgast austurströnd Bandaríkjanna. AFP

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Suður- og Norður-Karólínu og Virginíu vegna fellibyljarins Flórens sem stefnir á austurströnd Bandaríkjanna. Ef spár ganga eftir gæti Flórens orðið öflugasti fellibylurinn sem fer yfir svæðið í áratugi.

Flórens byrjaði sem annars stigs fellibylur en flokkast nú sem fjórða stigs fellibylur og hefur vindhraði mest náð 54 metrum á sekúndu. Talið er að fellibylurinn komi að ströndum Karólínuríkjanna á fimmtudag og að hann geti náð fimmta stigi. Búast má við að miklar rigningar og flóð fylgi fellibylnum.

Fellibylur af þessari stærðargráðu varð síðast á þessu svæði árið 1989 þegar fellibylurinn Hugo fór yfir Norður-Karólínu með þeim afleiðingum að 49 létu lífið. Fellibylurinn olli einnig gríðarlegri eyðileggingu.

Yfirvöld í Norður-Karólínu hafa fyrirskipað að íbúar á Outer Banks-eyjaklasanum yfirgefi heimili sín. Íbúar á öðrum svæðum í ríkinu búa sig undir fellibylinn og hafa raðir nú þegar farið að myndast í matvöruverslunum í ríkinu.

Til stóð að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, kæmi fram á fjöldafundi í Mississippi á föstudag en hann hefur afboðað komu sína vegna fellibyljarins.

Tveir fellibyljir til viðbótar, Isaac og Helene,  eru að myndast í Atlantshafi þessa stundina en ekki er talið að þeir muni ná að strönd Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert