Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Suður- og Norður-Karólínu og Virginíu vegna fellibyljarins Flórens sem stefnir á austurströnd Bandaríkjanna. Ef spár ganga eftir gæti Flórens orðið öflugasti fellibylurinn sem fer yfir svæðið í áratugi.
Flórens byrjaði sem annars stigs fellibylur en flokkast nú sem fjórða stigs fellibylur og hefur vindhraði mest náð 54 metrum á sekúndu. Talið er að fellibylurinn komi að ströndum Karólínuríkjanna á fimmtudag og að hann geti náð fimmta stigi. Búast má við að miklar rigningar og flóð fylgi fellibylnum.
NEW: Florence is now a category 4 hurricane. Data from a NOAA Hurricane Hunter indicate that Florence has continued to rapidly strengthen and has maximum sustained winds near 130 mph (195 km/h) and a minimum central pressure of 946 mb (27.93 inches) https://t.co/tW4KeGdBFb pic.twitter.com/wfLt6fJPl2
— National Hurricane Center (@NHC_Atlantic) September 10, 2018
Fellibylur af þessari stærðargráðu varð síðast á þessu svæði árið 1989 þegar fellibylurinn Hugo fór yfir Norður-Karólínu með þeim afleiðingum að 49 létu lífið. Fellibylurinn olli einnig gríðarlegri eyðileggingu.
Yfirvöld í Norður-Karólínu hafa fyrirskipað að íbúar á Outer Banks-eyjaklasanum yfirgefi heimili sín. Íbúar á öðrum svæðum í ríkinu búa sig undir fellibylinn og hafa raðir nú þegar farið að myndast í matvöruverslunum í ríkinu.
Til stóð að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, kæmi fram á fjöldafundi í Mississippi á föstudag en hann hefur afboðað komu sína vegna fellibyljarins.
Tveir fellibyljir til viðbótar, Isaac og Helene, eru að myndast í Atlantshafi þessa stundina en ekki er talið að þeir muni ná að strönd Bandaríkjanna.