Haldið í leynilegum „kyrrsetningarbúðum“

Uighurs-múslimar í iXinjiang héraði í Kína. Eftirlitsstöðvum hefur verið komið …
Uighurs-múslimar í iXinjiang héraði í Kína. Eftirlitsstöðvum hefur verið komið upp víða í héraðinu og er sérhverju heimili gert að hafa sérstakan QR kóða fyrir þá sem yfirvöld samþykkja að megi búa þar. Mynd úr safni. MARK RALSTON

Minnihlutahópur uighur-múslima í Xinjiang-héraði í Kína sætir gerræðislegum handtökum og margvíslegum takmörkunum varðandi trúariðkanir, auk þess sem pólitískri innrætingu er þröngvað upp á þá, að því er mannréttindasamtökin Human Rights Watch greindu frá í dag.

Mannréttindastjórn Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir í ágúst að kínversk stjórnvöld væru talin halda allt að einni milljón uighur-múslima í leynilegum „kyrrsetningarbúðum“ í Xianjiang-héraði þar sem þeir væru látnir sæta pólitískri innrætingu.

Reuters segir stjórnvöld í Kína hafna því alfarið að tilgangur slíkra búða sé „stjórnmálafræðsla“. Um sé að ræða starfsþjálfunarmiðstöðvar sem séu hluti af aðgerðum stjórnvalda til að örva hagvöxt og samfélagslegan hreyfanleika í héraðinu.

Kínversk yfirvöld hafa þó sagt Xinjiang stafa alvarleg ógn af íslömskum uppreisnarmönnum og aðskilnaðarsinnum sem undirbúi árásir og auki spennu milli uighur-múslima, sem líta á héraðið sem heimaslóðir sínar, og han-Kínverja sem eru fjölmennastir íbúa á svæðinu.

Bannað að heilsast að íslömskum sið

Human Rights Watch segir uighur og öðrum múslimum sem haldið er í búðunum vera bannað að heilsast að íslömskum sið, þá eru þeir skyldaðir til að læra mandarín kínversku og syngja áróðurssöngva. Byggja mannréttindasamtökin skýrslu sína m.a. á viðtölum við fimm einstaklinga sem voru í haldi í búðunum.

Stuðningsmenn uighur-múslima brenna hér mynd af Xi Jinping forseta Kína …
Stuðningsmenn uighur-múslima brenna hér mynd af Xi Jinping forseta Kína í mótmælum í Evrópu. AFP

Þá séu þeir íbúar Xinjiang sem eigi ættingja sem búa í einhverju þeirra 26 ríkja sem teljist „viðkvæm“, en meðal þeirra eru Kasakstan, Tyrkland og Indónesíu, valdir út af yfirvöldum og oft hnepptir í varðhald um nokkurra mánaða skeið án þess að málið fari í nokkurt formlegt ferli samkvæmt upplýsingum Human Rights Watch.

Neyddir til að standa uppréttir í sólarhring

Refsingar fyrir að neita að fylgja fyrirmælum í búðunum geta svo falið í sér að fólki sé neitað um mat, það sé neytt til að standa upprétt í sólarhring eða því sé gert að dvelja í einangrun.

Geng Shuang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, neitaði að tjá sig um skýrsluna við Reuters, utan þess að Human Rights Watch séu samtök sem séu „full af fordómum“ gegn Kína og að þau afskræmi staðreyndir.

Sagði Shuang aðgerðirnar í Xinjiang beinast að því að „auka stöðugleika, framþróun, einingu og lífsviðurværi“. Á sama tíma sé einnig farið í herferð gegn þjóðernislegum aðskilnaði og „glæpsamlegum ofbeldisaðgerðum hryðjuverkamanna“.

Heimilin látin fá QR kóða

Maya Wang, einn rannsakenda Human Rights Watch í Hong Kong sem hefur rætt við 58 fyrrverandi íbúa Xinjang sem nú búa erlendis, segir öryggiseftirlit í Xinjiang hafa verið aukið verulega og að það minni nú um margt á eftirlitið inni í búðunum.

Lýsti fólkið m.a. síauknum fjölda eftirlitsstöðva sem nýta m.a. andlitsgreiningarbúnað og eftirlitsbúnað lögreglu. Þá er hverju heimili gert að hafa sérstakan QR kóða sem hægt sé að skanna til að bera kennsl á hverjir samþykktir íbúar þess húss séu.

Einnig er fylgst með trúariðkun múslima, m.a. með því að spyrja hversu oft fólki biðji og hvenær moskum sé lokað. Þá fari embættismenn kínverska kommúnistaflokksins í reglulegar heimsóknir í afskekktari héruð Xinjiang sem þýði að íslamstrú hafi svo gott sem verið gerð útlæg, að sögn Wang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert