Lýsa yfir neyðarástandi vegna fellibyls

Fellibylurinn Florence stefnir á austurströnd Bandaríkjanna. Neyðarástandi hefur verið lýst …
Fellibylurinn Florence stefnir á austurströnd Bandaríkjanna. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Suður- og Norður-Karólínu og Virginíu. AFP

Meira en milljón manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín á í Suður-Karólínu vegna fellibylsins Flórens sem nálgast land á austurströnd Bandaríkjanna. Ríkisstjóri Suður-Karólínu, Henry McMaster, fór þess á leit við um milljón íbúa ríkisins að leita skjóls vegna fellibylsins. Talið er að Flórens fari yfir svæðið á fimmtudag.

Styrkur Flórens hefur farið stigmagnandi og flokkast nú sem fjórða stigs fellibylur á mælikvarða þar sem fimmta stigið er alvarlegast. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Norður- og Suður-Karólínu, sem og Virginíu. Talið er að flóðahætta skapist í kjölfar fellibylsins og búist er við því að rafmagnslínur slitni með tilheyrandi rafmagnsleysi.

Íbúarnir fá góðan tíma til að undirbúa brottflutninginn sem á að hefjast klukkan fjögur á morgun að íslenskum tíma. „Þetta er mjög hættulegur fellibylur,“ sagði McMaster á blaðamannafundi í kvöld. Hann sagði einnig að rýmingin væri ekki valkvæð, heldur skylda. „Við viljum ekki stefna lífi íbúa í Suður-Karólínu í hættu,“ bætti hann við.

Donald Trump hvetur íbúa Suður-Karólínu til að fara eftir fyrirmælum ríkisins og gæta fyllsta öryggis. Hann greindi frá því á Twitter í kvöld að hann hefði rætt við ríkisstjóra ríkjanna þriggja þar sem neyðarástandi hefði verið lýst yfir og að ríkisstjórnin væri í viðbragðsstöðu vegna Flórens. 

Flórens fer á um 20 kílómetra hraða á klukkustund. Um klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma var Flórens um 845 kílómetra suðsuðvestur við Bermúda. Búist er við að fellibylurinn fari milli Bermúda og Bahama-eyja á morgun og miðvikudag, áður en hann fer yfir austurströnd Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert