„Twitter-morðinginn“, Takahiro Shiraishi, sem grunaður er um að hafa myrt og sundurlimað fórnarlömb sem hann komst í tengsl við í gegnum samfélagsmiðilinn Twitter hefur nú verið ákærður fyrir að myrða níu manns.
Greint var frá því í fyrra að japanska lögreglan hefði handtekið Shiraishi eftir að sundurlimuð lík fundust í kælitöskum í íbúð hans.
Segir AFP Shiraishi hafa játað að hafa myrt og sundurlimað öll níu fórnarlömb sín. Utan eins karlmanns, þá voru fórnarlömbin öll konur á aldrinum 15-26 ára.
Shiraishi er talinn hafa komst í samband við fólk sem var í sjálfsvígshugleiðingum í gegnum Twitter með því að bjóða fram aðstoð sína við að hrinda sjálfsvíginu í framkvæmd. Í einhverjum tilfellum ræddi hann við fórnarlömbin um sameiginlegt sjálfsvíg.
Var hann látinn sæta fimm mánaða geðrannsókn eftir að hann var handtekinn og segir japanska Jiji-fréttastofan að niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið að Shiraishi væri sakhæfur.