Fæst ESB ríki mæta stöðlum um loftgæði

Loftmengun við Eiffel-turninn í París í mars 2014. Mynd úr …
Loftmengun við Eiffel-turninn í París í mars 2014. Mynd úr safni. AFP

Fæst ríki Evrópusambandsins mæta stöðlum ESB varðandi loftgæði og rúmlega 1.000 Evrópubúar deyja daglega fyrir aldur fram af þeim völdum og eru það tíu sinnum fleiri en farast í bílslysum. Þetta kemur fram í skýrslu ECA, endurskoðunarnefndar sem fylgist með því hvernig ESB-ríki eyða fjárheimildum sínum.

Segir ECA áhrifa loftmengunar á heilsu manna gæta einna mest í Búlgaríu og öðrum ríkjum Austur-Evrópu og að þau séu jafnvel meiri þar en í Indlandi og Kína. Misbrestir ESB séu enn meira áberandi þar sem viðmið sambandsins séu veikari en þau sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) leggur til.

„Loftmengun er stærsta umhverfishættan við heilsu manna í ESB,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Janusz Wojciechowski hjá ECA. „Stefnumál ESB hafa á undanförnum áratugum átt þátt í að draga úr útblæstri. Loftgæði hafa hins vegar ekki aukist á sama hraða og hafa enn töluverð áhrif á lýðheilsu.“

Í skýrslunni er mikill fjöldi þeirra 400.000 ótímabæru dauðsfalla sem verða í ESB-ríkjum skrifaður á loftmengun, m.a. á hátt magn nituróxíðs og ósóns á jörðu niðri. Þá er í skýrslunni að finna graf sem sýnir áhrif loftmengunar á lífsgæði vera meiri í Búlgaríu, Tékklandi, Lettlandi og Ungverjalandi en í Kína og Indlandi.

Heilsufarsskaðinn í Rúmeníu er sagður örlítið minni en í Kína, en meiri en á Indlandi samkvæmt grafinu. Litháen og Pólland fylgja skammt á eftir.

Segir ECA að ESB geti með beinum fjárlögum aukið loftgæði, ekki sé hins vegar alltaf nógu vel staðið að þeim verkefnum sem fjármögnuð eru.

Þá varar ECA við að loftmengun kunni að vera enn meiri en áætlanir geri ráð fyrir þar sem í einhverjum tilfellum séu mælingar e.t.v. ekki gerðar á réttum stöðum.

Ennfremur brjóti ESB-ríki reglulega gegn loftgæðastöðlum þrátt fyrir lagalegar aðgerðir framkvæmdaráðs Evrópusambandsins. Þannig höfðaði framkvæmdaráðið í maí á þessu ári mál gegn Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Ungverjalandi og Rúmeníu fyrir að uppfylla ekki loftgæðastaðla ESB.

„Þessi nýja skýrsla er enn ein ástæða fyrir ESB að vakna og taka af alvöru á loftmengunarkrísunni sem við stöndum frammi fyrir daglega,“ sagði í herferðinni Transport and Environment.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka