„Mögulega sögulegar hörmungar“

Gervihnattarmynd frá NASA af fellibylnum Florence.
Gervihnattarmynd frá NASA af fellibylnum Florence. AFP

Fellibylurinn Flórens nálgast nú austurströnd Bandaríkjanna og er vindhraðinn nú 225 km/klst. Hefur bandaríska fellibyljastofnunin NHC varað íbúa við að Flórens geti reynst „sérstaklega hættuleg“. Er íbúum fjarri ströndinni bent á að rafmagn kunni að fara og hætta sé á flóðum.

Fréttastofa Sky segir hillur í stórmörkuðum hafa tæmst og fólk fylli bensíntanka bíla sinna, en þúsundir búa sig nú undir að flýja undan fellibylnum. Gert er ráð fyrir að Flórens verði fimmta stigs fellibylur er hún fer yfir Bermúda og Bahama eyjar í dag og á morgun.

Brottflutningar íbúa í Norður- og Suður-Karólínuríki eru þegar hafnir, en gert er ráð fyrir að Flórens komi þar inn á fimmtudag, og segir Sky segir áhrifa af komu fellibyljarins þegar vera orðið vart. Sjávarstaða sé há, ölduhæð mikil og sjór tekinn að flæða yfir þjóðvegi

Ken Graham, forstjóri NHC, segir búist við að fellibylurinn muni dvelja yfir Karólínuríkjum er hann kemur þangað, en milljón manns á því svæði hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Þá hafa íbúar lengra inn til lands í ríkjunum tveimur verið varaðir við hættu á flóðum og rafmagnsleysi.

Fer mögulega yfir kjarnorkuver og iðnaðarúrgang

„Þetta verður ekki bara ströndin,“ sagði Graham. „Þegar veðrakerfi eins og þetta stöðvast og færist hægt yfir þá getur hluti regnsins fallið til jarðar vel fjarri miðjunni.“

Sky segir fellibylinn kunna að fara yfir sex kjarnorkuver og gryfjur með iðnaðarúrgangi.

Larry Hogan, ríkisstjóri Maryland, hefur lýst yfir neyðarástandi í ríkinu og segir yfirvöld þar vera að búa sig undir „mögulega sögulegar hörmungar og lífshættuleg flóð“.

Levat Stoney, borgarstjóri Richmond í Virginíu, hefur einnig lýst yfir neyðarástandi og hefur hvatt íbúa til að hamstra matvæli sem endast lengi, drykkjarvatn, vasaljós og rafhlöður.

Eigandi bensínstöðvar í Wilmington í Norður-Karólínuríki sagði í samtali við Reuters að fjöldi viðskiptavina hefði þrefaldast og að íbúar væru orðnir örvæntingarfullir vegna mögulegra áhrifa Flórens.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á Twitter í gær að stjórnvöld væru í „startholunum, reiðubúin að aðstoða allan sólarhringinn.“ Trump var gagnrýndur í fyrra fyrir slæleg viðbrögð er fellibylurinn Maria fór yfir Púertó Ríkó í fyrra.

Í annarri færslu kvaðst hann hafa frétt að Flórens yrði einn öflugast stormur til að koma upp að austurströndinni um árabil.  „Verið undirbúin, farið varlega og verið örugg,“ bætti Trump við.

Á heimasíðu win­dy.com má fylgj­ast með ferðum felli­bylj­ar­ins Flórens.

Á síðunni má sjá hvert felli­byl­ur­inn stefn­ir á gagn­virku korti.
Á síðunni má sjá hvert felli­byl­ur­inn stefn­ir á gagn­virku korti. Skjáskot/Windy.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert