Neyðarástandi lýst yfir í Washington vegna Flórens

Borgarstjóri Washington, Muriel Bowser (til hægri) hefur lýst yfir neyðarástandi …
Borgarstjóri Washington, Muriel Bowser (til hægri) hefur lýst yfir neyðarástandi í höfuðborginni vegna fellibylsins Florence sem stefnir á austurströnd Bandaríkjanna. AFP

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, vegna fellibylsins Flórens sem nálgast austurströnd landsins. Muriel Bowser, borgarstjóri Washington, segir að neyðarástandið taki gildi strax en von er á að fellibylurinn fari yfir borgina á fimmtudag. Fellibylnum fylgir hellirigning og hætta verður á flóðum.

Í gær var neyðarástandi lýst yfir í Virginíu, Norður- og Suður-Karólínu og hefur yfir millj­ón manns á því svæði verið gert að yf­ir­gefa heim­ili sín og eru brottflutningar hafnir.

Neyðarástandið gildir næstu fimmtán daga og líkt og fyrr segir er gert ráð fyrir að Flórens fari yfir austurströnd Bandaríkjanna á fimmtudag.

Neyðarástandi var síðast lýst yfir í höfuðborginni í janúar 2016 þegar stormurinn „Snowzilla“ gekk yfir með mikilli snjókomu. 

Fellibylurinn Florence nálgast austurströnd Bandaríkjanna.
Fellibylurinn Florence nálgast austurströnd Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert