Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, vegna fellibylsins Flórens sem nálgast austurströnd landsins. Muriel Bowser, borgarstjóri Washington, segir að neyðarástandið taki gildi strax en von er á að fellibylurinn fari yfir borgina á fimmtudag. Fellibylnum fylgir hellirigning og hætta verður á flóðum.
Í gær var neyðarástandi lýst yfir í Virginíu, Norður- og Suður-Karólínu og hefur yfir milljón manns á því svæði verið gert að yfirgefa heimili sín og eru brottflutningar hafnir.
Neyðarástandið gildir næstu fimmtán daga og líkt og fyrr segir er gert ráð fyrir að Flórens fari yfir austurströnd Bandaríkjanna á fimmtudag.
Neyðarástandi var síðast lýst yfir í höfuðborginni í janúar 2016 þegar stormurinn „Snowzilla“ gekk yfir með mikilli snjókomu.