Borgaryfirvöld í Hanoi, höfuðborg Víetnams, beina því nú til íbúa að draga úr hundaáti, þar sem athæfið skemmi fyrir ímynd borgarinnar og auki einnig hættuna á hundaæðissmiti.
Víða í borginni, sem þekkt er fyrir líflega matarmarkaði, má finna steikt, soðið eða gufusoðið hundakjöt til sölu, en kjötinu er oftast skolað niður með hrísgrjónavíni eða –bjór.
Íbúar eru einnig hvattir til þess að hætta alfarið að leggja ketti sér til munns, en kattakjöt er víða í boði á víetnömskum matseðlum, sér í lagi í dreifbýli, gjarnan undir heitinu „lítill tígur“.
Í yfirlýsingu borgaryfirvalda sem birtist í dag segir að aðfarirnar við að drepa þessi dýr séu oft ómannúðlegar og að vonast sé eftir því að neysla á kjöti þessara dýra hætti, fyrr en síðar. Yfirvöld segja málið snúast um að viðhalda orðspori Hanoi sem „siðaðrar og nútímalegrar höfuðborgar“ og vísa til þess að neysla á hunda- og kattakjöti veki neikvæð viðbrögð hjá bæði ferðamönnum og erlendum íbúum í borginni.
Um það bil 1.000 veitingastaðir og búðir selja hunda- eða kattakjöt í borginni, en þrír hafa látið lífið það sem af er ári vegna hundaæðis í kjölfar neyslunnar og tveir til viðbótar veikst.