Lula hættur við forsetaframboð

Forsetaframbjóðandinn Fernando Haddad með fylgismönnum. Hann fær stuðning Lula.
Forsetaframbjóðandinn Fernando Haddad með fylgismönnum. Hann fær stuðning Lula. AFP

Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, er hættur við að bjóða sig fram að nýju og lýsir þess í stað yfir stuðningi við Fernando Haddad sem frambjóðanda Verkamannaflokksins, að því er BBC greinir frá.

Það var formaður Verkamannaflokksins, Gleisi Hoffman, sem tilkynnti ákvörðun Lula í gær fyrir utan lögreglustöðina í borg­inni Cu­ritiba þar sem Lula hefur setið í fangelsi frá því í apríl á þessu ári. Lula hlaut 12 ára dóm fyrir spillingu fyrr á árinu og bannaði dómstóll honum fyrir hálfum mánuði að bjóða sig fram til forseta á nýjan leik vegna spillingardómsins.

Lula hafði ætlað að áfrýja þeirri ákvörðun, en hefur nú tekið ákvörðun um að draga framboð sitt til baka.

Fylgi for­setafram­bjóðand­ans og hægri öfga­manns­ins Jair Bol­son­aro, hef­ur farið vax­andi eft­ir að hann særðist hættu­lega í hnífa­árás í síðustu viku og var hann með meiri­hluta­fylgi, 24%, í síðustu skoðana­könn­un og var tal­inn lík­leg­ur keppi­naut­ur Lula um for­seta­embættið.

Greint var frá því í gær að Bolsonaro yrði að gangast undir meiriháttar aðgerð eftir árásina, en læknar höfðu áður sagt ástand hans alvarlegt en ekki lífshættuleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert