Pútín: Hinir grunuðu eru ekki glæpamenn

Mennirnir tveir sem bresk yfirvöld gruna um að hafa eitrað …
Mennirnir tveir sem bresk yfirvöld gruna um að hafa eitrað fyrir Skripal feðginunum. Pútín segir þá vera almenna borgara. AFP

Mennirnir tveir sem grunaðir eru um að hafa eitrað fyrir rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans eru almennir borgarar, ekki glæpamenn, að því er Vladimír Pútín Rússlandsforseti fullyrðir.

Bresk yfirvöld hafa nafngreint mennina tvo og segjast telja þá Alexander Petrov og Ruslan Boshirov vera liðsmenn leyniþjónustu rússneska hersins GRU.

BBC segir Pútín hafa greint frá því að rússnesk stjórnvöld hafi haft uppi á mönnunum og að hann vonist til að þeir komi fram fljótlega og segi sögu sína.

Eitrað var fyrir Skripal feðginin í mars á þessu ári.

„Við vitum hverjir þeir eru, við erum búin að finna þá,“ sagði Pútín. „Ég vona að þeir muni gefa sig fram og segja frá. Það væri öllum fyrir bestu. Það er ekkert spennandi við þetta, ég fullvissa ykkur um að þetta er ekkert glæpsamlegt.“

Breska lögreglan segist hafa nægar sannanir til að ákæra mennina, sem eru sagðir hafa flogið frá Moskvu til Bretlands 2. mars. Tveimur dögum síðar úðuðu þeir taugaeitrinu Novichok á útidyrahurðina á heimili Skripal í Salisbury og héldu svo aftur heim til Rússlands sama dag.

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, hefur varað mennina við að þeir verði handteknir og ákærðir yfirgefi þeir Rússland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka