Flórens breytir um stefnu

Íbúar í Wilmington bíða fregna af fellibylnum Flórens.
Íbúar í Wilmington bíða fregna af fellibylnum Flórens. AFP

Fellibylurinn Flórens er nú ekki eins öflugur og spár gerðu ráð fyrir en bandarísk yfirvöld segja hann þó enn geta valdið miklum hamförum. Hann er nú flokkaður sem annars stigs fellibylur en þar sem hann fer óvenjuhægt yfir gæti hann valdið gríðarlegum flóðum, jafnvel dögum saman.

Um tíu milljónir manna eru sagðar á hættusvæði og hafa verið búnar undir hið versta og í frétt CNN segir að íbúum strandbæja hafi verið gert að yfirgefa heimili sín þegar í stað. „Þú hættir lífi þínu ef þú verður um kyrrt,“ sagði Roy Cooper, ríkisstjóri Norður-Karólínu. Ríkisstjóri Suður-Karólínu hefur fyrirskipað milljón manns að flýja. 

 Í frétt BBC segir að útlit sé nú fyrir að Flórens fari sunnar en í fyrstu var talið og því hefur Georgía bæst í hóp þeirra ríkja Bandaríkjanna sem búa sig undir óveður. Fyrir voru ríkin Norður- og Suður-Karólína í viðbragðsstöðu sem og Maryland og Washington.

Viðkvæm heimili

Íbúar í smáhýsabyggð í Wilmington voru í gær í óða önn að pakka saman eigum sínum og yfirgefa heimili sín. Þeir eru ekki vissir um að eiga enn þak yfir höfuðið í kjölfar Flórens.

Byggðin er á milli Cape-árinnar og Atlantshafsins og í fyrstu mætti halda að um sumardvalarstað væri að ræða þar sem fjöldi smáhýsa stendur víðsvegar um svæðið. Svo er hins vegar ekki heldur býr þar fólk allan ársins hring, fátækt fólk sem ekki hefur efni á því að búa í betri húsum. Húsin eru ótraust og mörg hver byggð úr viði.

„Ódýrt húsnæði í nágrenni strandarinnar!“ segir í auglýsingu um smáhýsin á svæðinu.

Þegar bæta tók í vindinn í gær komu sjálfboðaliðar úr kirkjum í nágrenninu og bönkuðu upp á hjá íbúum smáhýsanna og hvöttu þá til að leita skjóls annars staðar. 

Oscar Perez er í hópi íbúanna. Hann segist hafa ákveðið fyrir nokkru að flýja. „Þessi hús eru mjög viðkvæm og nú þegar fellibylurinn er á leiðinni þá höfum við engan annan kost en að fara,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. „Við tökum eitthvað með okkur fyrir börnin að borða næstu daga. Við vitum ekki hverju við eigum von á.“

Hann segir aðalatriðið að halda lífi. Veraldlegir hlutir skipti engu. 

Alondra Espinoza er búin að hlaða bílinn sinn af farangri. „Nú erum við tilbúin að fara,“ segir hún. „Ég hef lent í fellibyljum en aldrei áður með börnin mín. Ef það væri ekki fyrir þau myndi ég vera hér áfram. En nú er allt breytt. Ég vil koma þeim sem lengst í burtu.“

Hún vonar að heimili sitt standi enn er hún snýr til baka en undirbýr sig fyrir hið versta. 

Um klukkan 3 í nótt að íslenskum tíma var Flórens um 500 kílómetra suðaustur af Wilmington sem er í Norður-Karólínu. Nú er talið að fellibylurinn komi fyrst að landi í Georgíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert