Segja viðtalið tilbúning og móðgun

Mennirnir kváðust vera þeir Ruslan Boshirov og Alexander Petrov, og …
Mennirnir kváðust vera þeir Ruslan Boshirov og Alexander Petrov, og líkjast mjög þeim mönnum sem breska lögreglan grunar um að hafa komið Novichok-taugaeitri fyrir á útihurð Sergei Skripal AFP

Bresk stjórnvöld höfnuðu í dag viðtali sem rússneska RT-sjónvarpsstöðin birti við tvo menn sem bresk yfirvöld segja vera tilræðismenn rússneska gagnnjósnarans Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans. Segja þau viðtalið vera „móðgun“.

„Lygarnar og tilbúningurinn í þessu viðtali sem er veitt í rússneska ríkissjónvarpinu eru móðgun við gáfnafar almennings,“ hefur AFP-fréttastofan eftir talsmanni Theresu May forsætisráðherra.

Menn­irn­ir kváðust í viðtalinu vera þeir Rusl­an Bos­hirov og Al­ex­and­er Petrov, og líkj­ast mjög þeim mönn­um sem breska lög­regl­an grun­ar um að hafa komið Novichok-tauga­eitri fyr­ir á úti­h­urð Ser­gei Skripal í Sal­isbury í mars. Í viðtal­inu kváðust þeir hafa komið til Eng­lands sem ferðamenn og heim­sótt Sal­isbury vegna þess að vin­ir þeirra höfðu mælt með borg­inni.

Sagði talsmaður May ekki síður mikilvægt að viðtalið sé „særandi fyrir fórnarlömb þessarar hræðilegu árásar og ástvini þeirra. Því miður er þetta það sem við eigum orðið að venjast“, bætti hann við.

„Ólöglegt  efnavopn var notað á götum í þessu landi. Við höfum séð fjóra einstaklinga veikjast alvarlega og saklaus kona lést. Rússnesk yfirvöld sýna fyrirlitningu í svörum sínum.“

Breska lögreglan hafi sýnt skýrar sannanir gegn mönnunum sem séu eftirlýstir og bresk yfirvöld hafi gert allt til að tryggja að þeir náist og verði látnir svara til saka í Bretlandi stígi þeir nokkurn tímann aftur fæti út fyrir Rússland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert