Þrír slösuðust er skriða féll á Navagio-ströndinni á grísku eyjunni Zante í dag. Um er að ræða einn vinsælasta ferðamannastað Grikklands.
„Það heyrðust skruðningar og steinar tóku að falla og svo stærri og stærri. Þeir ollu svelg í sjónum og [þrír] bátar fóru á hliðina,“ segir sjónarvottur.
Yfirvöld lokuðu þegar í stað ströndinni sem liggur meðfram 200 metra háu klettabelti og þangað er aðeins hægt að komast á sjó.
Hundruð manna voru á ströndinni er skriðan féll, þeirra á meðal börn.
Meiðsl hinna slösuðu eru sögð minniháttar.
Navagio er ein vinsælasta ströndin í Grikklandi og dregur nafn sitt af flaki flutningaskips sem strandaði á svæðinu fyrir um fjörutíu árum.
Ströndin er m.a. vinsæll viðkomustaður þeirra sem vilja fara í teygjustökk.