Hafa kortlagt ferðir Rússanna um Salisbury

Rússarnir tveir á lestarstöð í Salisbury.
Rússarnir tveir á lestarstöð í Salisbury. Skjáskot/BBC

Rússarnir tveir, sem grunaðir eru um að hafa eitrað fyrir Skripal-feðginin, sjást á upptökum öryggismyndavéla ganga um götur Salisbury þar sem feðginin fundust meðvitundarlaus í mars.

Lögreglan hefur kortlagt ferðir mannanna samkvæmt upptökunum. Sjálfir segjast þeir aðeins vera ferðamenn og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir þá almenna borgara.

Alexander Petrov og Ruslan Boshirov hafa sagt að þeir hafi farið til Salisbury til að skoða dómkirkjuna þar í bæ og að vinir þeirra hafi mælt með ferðalagi þangað. 

En bresk yfirvöld taka þessum útskýringum fálega og saka þá um að hafa byrlað Sergei Skripal og dóttur hans Júlíu lífshættulegt eitur, novichok, því hinu sama og maður í næsta bæ og unnusta hans komust nokkru síðar í snertingu við með þeim afleiðingu að unnustan lést. Í því tilfelli hafði eitrið fundist í ilmvatnsflösku.

Á vef breska ríkisútvarpsins er nú að finna myndband sem sýnir Rússana tvo í Salisbury og ferðir þeirra þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert