Einn þekktasti listamaður Belgíu, Jan Fabre, sem unnið hefur sem myndlistarmaður, leikskáld, leikstjóri, danshöfundur og hönnuður, er sakaður af fjölda karla og kvenna, sem unnið hafa með honum, um kynferðislega áreitni, í opnu bréfi sem birt var opinberlega í vikunni.
Erna Ómarsdóttir, listdansstjóri Íslenska dansflokksins, er þeirra á meðal og efst á listanum yfir þá sem skrifa undir bréfið. Bréfritarar eru 20 talsins og segja raddir þeirra hluta af #metoo-byltingunni. Þeir hafa allir starfað með Fabre í Troubleyn-leikhúsinu sem hann stofnaði í Antwerpen árið 1986.
Vildi kynlíf að launum
Á fréttavefnum Brussel Times kemur fram að þessar tuttugu manneskjur, sem voru ýmist starfsmenn eða lærlingar við Troubleyn, hafi allar unnið með Fabre og saki hann nú um ósæmilega hegðun í bréfinu sem birtist fyrst á vef listtímaritsins rekto:verso. Í því kemur fram að Fabre hafi bæði niðurlægt og ógnað starfsmönnum og ljósmyndað í laumi. Fabre er gefið að sök að hafa boðið dönsurum hlutverk í sviðsverkum en fyrir þau áttu dansararnir að þóknast honum kynferðislega. Sumum dönsurum bauð hann háar fjárhæðir eftir slíka þjónustu, að því er fram kemur í frétt Brussel Times um málið. Þeir sem vildu ekki þóknast Fabre lentu í því að hlutverk þeirra væru minnkuð og áttu á hættu að vera niðurlægðir og misnotaðir, að því er fram kemur í bréfinu. Átta þeirra sem saka Fabre um ofbeldi og kúgun skrifa undir bréfið með nafni en hinir eru nafnlausir.
Fabre er einnig gefið að sök að niðurlægja konur á æfingum með þjáningarfullum og oft á tíðum karlrembulegum athugasemdum. Þeir sem skrifa undir bréfið hafa ýmist orðið fyrir slíkri kúgun af hendi Fabre eða orðið vitni að henni.
Bréfritarar segja ástæðuna fyrir því að þeir ásaka Fabre opinberlega þá að ekki hafi verið hlustað á kvartanir þeirra í leikhúsinu. Þá segja þeir einnig að Fabre hafi misboðið þeim með því að halda því fram í viðtali að hann hefði aldrei orðið var við að farið væri yfir einhver kynferðisleg mörk í samskiptum hans við undirmenn sína á 40 ára starfsferli hans. Að minnsta kosti sex starfsmenn Troubleyn hafa sagt upp á síðustu tveimur árum vegna þessa, að því er fram kemur í bréfinu og í fréttinni.
Hafna ásökunum
Fabre og stjórn Troubleyn hafna öllum ásökunum og segja engan starfsmann hafa verið neyddan til neins sem hann teldi misbjóða sér. Þá þykir þeim miður að réttað sé yfir Fabre og leikhúsinu í fjölmiðlum án þess að fá tækifæri til að verja sig. Á vef leikhússins má sjá yfirlýsingu þessa efnis en bréfið má finna hér.