Undirbúa sig fyrir hið versta

Hitabeltisstormuinn Mangkhut undan austurströnd Filippseyja.
Hitabeltisstormuinn Mangkhut undan austurströnd Filippseyja. AFP

Óveður nálgast bæði Filippseyjar og Bandaríkin. Á Filippseyjum er það hinn kröftugi hitabeltisstormur Mangkhut sem óttast er að valdi usla en í Bandaríkjunum fellibylurinn Flórens sem nú er kominn upp að austurströnd landsins og þegar farinn að láta til sín taka.

Reynt er að koma þúsundum í skjól fyrir Mangkhut og óttast er að önnur kröftug hitabeltislægð, Barijat, eigi eftir að fylgja í kjölfarið og hafa mikil áhrif í Austur- og Suðaustur-Asíu, að því er fram kemur í frétt CNN.

Mangkhut er kraftmeiri en Flórens. Óveðrið mun ná ströndum eyjunnar Luzon á morgun. Vindhraðinn er þegar orðinn gríðarlega mikill og jafnast á við fimm stiga fellibyl. Mangkhut hefur þegar gengið yfir Gvam og Marshall-eyjar í Kyrrahafi þar sem hann olli rafmagnsleysi og flóðum. Enn er rafmagnslaust á hluta eyjunnar Gvam.

Fólk hefur hamstrað mat vegna komu hitabeltisstormsins Mangkhut.
Fólk hefur hamstrað mat vegna komu hitabeltisstormsins Mangkhut. AFP

Óttast er að Mangkhut eigi eftir að valda jafnmikilli eyðileggingu á Filippseyjum og hitabeltisstormurinn Haiyan gerði árið 2013. Í honum fórust yfir 6.000 manns.

„Við erum að undirbúa okkur fyrir hið versta,“ hefur CNN eftir Lanelyn Carillo, talsmanns mannúðarsamtaka á Filippseyjum.

Þó að eitthvað hafi dregið úr vindstyrk Flórens er enn óttast að fellibylurinn geti orðið mannskæður. Verst er veðrið talið verða í Suður- og Norður-Karólínu. Þar eru þegar yfir 10 þúsund heimili rafmagnslaus. Yfirvöld hafa, að því er fram kemur í frétt BBC, varað við því að óveðrið gæti orðið „mörgu fólki“ að bana, ekki síst vegna þess að talið er að mikil flóð muni fylgja. 

Yfir milljón íbúa strandbæja í Norður- og Suður-Karólínu og Virginíu hefur verið fyrirskipað að yfirgefa heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert