„Sögulega mikil“ úrkoma

Ríkisstjóri Norður-Karólínu varar íbúa ríkisins sem flúið hafa undan fellibylnum Flórens við því að snúa heim strax þar sem mikil flóðahætta sem getur reynst lífshættuleg hefur skapast. Sömu sögu er að segja frá fleiri ríkjum á austurströnd Bandaríkjanna.

„Athugið að vatn rís hratt alls staðar, jafnvel á stöðum sem verða yfirleitt ekki fyrir flóðum,“ segir ríkisstjórinn Roy Cooper. „Þetta veðrakerfi er að skila fordæmalausri úrkomu, sum staðar í metra vís, ekki sentímetra.“

Hann segir að staðfest sé að fimm hafi látist í óveðrinu til þessa og óttast er um afdrif nokkurra. Meðal látinna er kona og ungt barn hennar sem urðu undir tré.

Er Flórens kom á land í gær var hún orðin að fyrsta stigs fellibyl og hefur síðan þá enn dregið úr vindhraðanum og er veðrið nú skilgreint sem hitabeltisstormur. Það sem veldur hins vegar usla nú er hversu hægt óveðrið fer yfir og hversu gríðarmikil úrkoma fylgir því.

Um 20 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna komu Flórens. Óveðrið hefur rifið niður tré og rafmagnslínur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert