35 farast í aurskriðu af völdum Mangkhut

Íbúar í bænum Itogon í Benguet leituðu margir skjóls í …
Íbúar í bænum Itogon í Benguet leituðu margir skjóls í kirkju er Mangkhut fór yfir. 36 er nú leitað eftir að aurskriða lenti á bænum. AFP

Hundruð húsa hafa eyðilagst á Filippseyjum og óttast er að 36 manns hið minnsta hafi grafist undir mikilli aurskriðu sem fylgdi í kjölfar þess að fellibylurinn Mangkhut fór yfir eyjarnar.

Fréttastofa CNN segir björgunarmenn nú vinna af kappi við að reyna að grafa fólk úr skriðunni í námabænum Itogon í Benguet þar sem 35 manns hið minnsta hafa látist af völdum Mangkhut.

„Við erum enn að leita að 36 manns sem ekkert hefur spurst til,“ hefur CNN eftir Emmanuel Salamat, hershöfðingja í filippseyska hernum, en tuga manna er enn saknað í Itogon.

Talið er að mörg fórnarlambanna hafi leitað sér hælis í kirkju er Mangkhut fór yfir.

Mohammed Abdiker, aðgerðastjóri fólksflutninga hjá Sameinuðu þjóðunum, segir allt að 50 kunna að vera grafna undir skriðunni. Drónamyndir sem hafa verið birtar sýna mikið skarð í fjallinu og hvernig aurinn virðist hafa rutt húsum á brott.

„Það er reiðarslag að sjá að húsið okkar er ónýtt,“ sagði Adelfa Lunato sem hafði snúið aftur til heimabæjar síns Luzon með fjölskyldunni í gær. „Við fórum öll að gráta. Að sjá skemmdirnar rændi okkur lífsviljanum.“

CNN segir Cagayan-héraðið í norðurhluta Filippseyja hafa orðið hvað verst fyrir barðinu á Mangkhut, sem er öflugasti fellibylur sem farið hefur yfir á þessu ári og höfðu íbúar verið varaðir við hættu á sjávarflóðum og voru hvattir til að yfirgefa heimili sín.

Skemmdirnar eru líka miklar og enn er unnið að því að koma á rafmagni víða í héraðinu.

Í bænum Buguey reif Mangkhut þakið af heimili Rosbin Martin og fjölskyldu hennar. „Vindurinn varð sífellt öflugri,“ segir hún. Vatn hafði þegar flætt inn og náði henni í sköflungshæð. Hún og nágranni hennar Arthur Pagador voru sammála um að þetta væri kröftugasti fellibylur sem þau myndu eftir og þó eru ekki nema tvö ár frá því að fellibylurinn Haima fór yfir svæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert