Allar leiðir lokaðar vegna Flórens

Flóð er víða á vegum í Norður-Karólínuríki vegna þeirrar úrhellisrigningar …
Flóð er víða á vegum í Norður-Karólínuríki vegna þeirrar úrhellisrigningar sem fylgdi Flórens. Borgin Wilmington er nú algjörlega einangruð frá öðrum hlutum ríkisins. AFP

Borgin Wilmington í Norður-Karólínuríki er nú algjörlega einangruð frá öðrum hlutum Norður-Karólínuríkis vegna sívaxandi hæðar flóðavatns. BBC segir alla vegi til og frá borginni nú vera ófæra og hafa þeir íbúar sem yfirgáfu Wilmington fyrir komu Flórens verið hvattir til að halda sig fjarri.

Er Wilmington, þar sem um 117.000 manns búa, nú lýst sem eyríki innan Norður-Karólínuríkis. 17 manns hið minnsta hafa nú látist af völdum Flórens og var það lög­regl­an í Wilm­ingt­on sem til­kynnti um fyrstu dauðsföllin af völdum Flórens, er móðir og ung­barn lét­ust þegar tré féll á hús þeirra.

Búið er að bjarga um 400 manns úr flóðavatninu og borgin er að mestu leyti án rafmagns og var útgöngubann sett á eftir að fimm manns voru handteknir vegna gruns um þjófnað í verslun í bænum um helgina.

Bandaríska veðurstofan hefur varað við því að búast megi áfram við skyndiflóðum næstu tvo daga, en eftir það ætti ástandið að fara að batna.

„Ekki vera að koma hingað,“ hefur BBC eftir formanni stjórnar New Hanover-sýslu. „Það er flóð á vegunum, það kemst enginn til Wilmington. Við viljum fá ykkur heim aftur, en það er ekki hægt strax.“

Wilmington er annars einna þekktust fyrir að vera heimabær körfuboltastjörnunnar Michael Jordan og fyrir að sjónvarpsþættirnir One Tree Hill og Dawson's Creek voru teknir upp þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert