Rússnesk yfirvöld lögðu í dag fram ný gögn, sem þau segja sýna að úkraínski herinn hafi grandað flugi MH17, flugvél Malaysian Airlines-flugfélagsins, yfir Austur-Úkraínu árið 2014. Rússar segja að flugskeytið sem grandaði vélinni hafi verið flutt til Úkraínu er landið var enn hluti Sovétríkjanna og aldrei verið fært aftur heim til móðurlandsins.
„Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur var flugskeytið ekki fært yfir til Rússlands heldur sett í vopnabúr úkraínska hersins,“ sagði Nikolai Parshin, háttsettur embættismaður innan rússneska varnarmálaráðuneytisins, á blaðamannafundi í dag, en þessu munu Rússar hafa komist að með því að bera kennsl á raðnúmer flugskeytisins.
Rússar hafa staðfastlega neitað því að hafa átt hlut að máli er flugvélinni var grandað árið 2014 með þeim afleiðingum að 298 manns létust, en fjölþjóðlegt teymi rannsakenda, undir hollenskri stjórn, hefur fullyrt að flugskeytið hafi verið í eigu rússneska hersins, nánar tiltekið 53. herdeildarinnar, sem er með bækistöðvar í borginni Kursk í suðvesturhluta Rússlands.
Varnarmálaráðuneyti Rússa segir nú einnig að myndskeið, sem sýnir flutning flugskeytisins til átakasvæða í Austur-Úkraínu og rannsakendur hafa stuðst við, sé falsað.
Rússar hafa komið þessum upplýsingum til fjölþjóðlega rannsóknarteymisins sem sagði í yfirlýsingu í dag að það myndi fara „vandlega“ yfir þær upplýsingar sem rússnesk yfirvöld færðu fram.
Í yfirlýsingu rannsakendanna kom þó einnig fram að fyrri kenningar Rússa um það sem átti sér stað þennan örlagaríka dag, eins og það að úkraínsk herþota hefði verið nærri flugi MH17 þennan dag, „hefðu raunar ekki verið réttar“.