Þýskir læknar sem hafa annast Pyotr Verzilov, meðlim í rússneska andófshópnum Pussy Riot, telja „mjög líklegt“ að honum hafi verið byrlað eitur. Verzilov er einn fjögurra meðlima andófshópsins sem þustu inn á úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í fótbolta í Rússlandi í sumar.
Hann veiktist skyndilega á þriðjudaginn í síðustu viku, eftir að hann hafði komið fyrir dóm í Moskvu. Í kjölfarið var Verzilov fluttur með hraði á spítala þar í borg, en síðan flogið til Berlínar á laugardagskvöld, þar sem hann hefur dvalið á gjörgæsludeild Charité-spítalans, þó ekki í lífshættu.
Fyrstu einkenni veikinda hans voru þau að hann tapaði sjón og varð ófær um að ganga, en læknar í Þýskalandi lýstu því á blaðamannafundi í morgun að taugakerfi Verzilovs væri í ólagi og að það hefði áhrif á virkni innri líffæra hans.
„Það er mjög líklegt að honum hafi verið byrlað eitur,“ sagði einn læknir við fjölmiðla í morgun og bætti því við að engin önnur sjáanleg ástæða gæti skýrt ástand Verzilovs. Læknarnir sögðust ekki enn hafa ákvarðað hvaða efni hefði verið notað til þess að eitra fyrir andófsmanninum.