Breska lögreglan rannsakar nú hvort um mögulega blekkingu hafi verið að ræða þegar par veiktist, líklega af völdum eitrunar, á veitingastað í Salisbury á sunnudag.
BBC greinir frá því að hinn 42 ára gamli Alex King hafi verið fluttur á spítala ásamt eiginkonu sinni eftir að grunur kom upp um að þau hefðu orðið fyrir eitrun. Rússneski gagnnjósnarinn Sergei Skripal og dóttir hans urðu fyrir taugaeitursárás í sömu borg, Salisbury, fyrr á árinu. Þá lést almennur borgari og annar veiktist eftir að þau komust í snertingu við sama eitur í borginni nokkrum mánuðum síðar.
Alex King er dæmdur glæpamaður og hefur hann meðal annars vakið athygli fyrir að hafa blekkt Karl Bretaprins á kvikmyndafrumsýningu árið 2006. Breska lögreglan sagði að ekki væri hægt að útiloka neitt fyrr en búið væri að ræða við King.
Eiginkona King, Anna Shapiro, sagði í viðtali við slúðurblaðið Sun að yfirvöld í Rússlandi hefðu eitrað fyrir henni og eiginmanni hennar. Shapiro er ísraelskur ríkisborgari af rússneskum ættum. Í umfjöllun Sun kemur fram að mögulega hafi verið um að ræða eitrun með rottueitri.
Umfjöllun Sun hefur nú verið eytt af vefsíðu blaðsins af lagalegum ástæðum, að því er haft er eftir talsmanni miðilsins á BBC. „Eins og hvert dagblað höfðum við áhuga á að tala við þá sem málið snýst um og gefa þeim tækifæri á að segja sína sögu.“
Enginn hefur enn verið handtekinn í tengslum við málið.