Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ekki vera með neinn dómsmálaráðherra í ríkisstjórn sinni. Ummælin lét forsetinn falla í viðtali við sjónvarpsstöðina Hill.TV og þau eru harðasta árás sem hann hefur gert hingað til á Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Trump hefur gagnrýnt Sessions harkalega vegna þeirrar ákvörðunar hans að segja sig frá rannsókn alríkislögreglunnar á meintum tengslum aðstoðarmanna Trumps við Rússa í kosningabaráttunni fyrir tveimur árum.
Þá segist Trump einnig vera óánægður með það hvernig Sessions hafi tekið á málefnum innflytjenda.
„Ég er ekki með neinn dómsmálaráðherra. Það er afar sorglegt,“ sagði Trump í viðtalinu sem var tekið í gær. Hann bætti því við, að hann hefði verið afar vonsvikinn yfir þeirri ákvörðun Sessions að segja sig frá rannsókninni.
Þegar hann var spurður hvort hann væri að íhuga að reka Sessions úr embætti svaraði Trump: „Við sjáum hvað gerist. Margir hafa beðið mig um að gera það.“
Trump segist enn fremur vilja láta kyrrt liggja en „það sem hann gerði var afar ósanngjarnt.“
Sessions hefur ekki tjáð sig um ummæli forsetans, að því er fram kemur á vef BBC.
Tveir hátt settir þingmenn Repúblikanaflokksins sögðust styðja við bakið á Trump ef hann ákvæði að víkja Sessions úr embætti eftir þingkosningarnar í nóvember, en þetta kom fram í kjölfar gagnýni forsetans á Sessions í síðasta mánuði.
Aðrir repúblikanar hafa aftur á móti bent á að það væri óskynsamleg ákvörðun og segjast standa með ráðherranum.
Sessions var dyggur stuðningsmaður Trumps þegar hann bauð sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna. Hann ákvað hins vegar að segja sig frá rannsókn alríkislögreglunnar í fyrra vegna hagsmunaáreksturs og setti málið í hendur Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Trump hefur neitað því að tengsl hafi verið á milli kosningabaráttu hans og rússneskra yfirvalda, og þá neitar forsetinn því sömuleiðis að hann hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.