Blæddi úr eyrum og nefi flugfarþega

Súrefnisgrímur féllu úr loftinu eftir að blæða fór úr eyrum …
Súrefnisgrímur féllu úr loftinu eftir að blæða fór úr eyrum og nefjum nokkurra farþega. Í ljós kom að loftþrýstingur í vélinni hafði fallið vegna þess að flugstjórinn gleymdi að ýta á hnapp sem tryggir viðeigandi loftþrýsting. Ljósmynd/Twitter

Flug­vél ­flug­fé­lags­ins Jet Airways, sem var á leið frá Mumbai til Jaipur á Indlandi, neydd­ist til að snúa við stuttu eftir flugtak þegar blæða tók úr eyr­um og nefi farþega vél­ar­inn­ar. BBC greinir frá. 

Í ljós kom að flugmaður vélarinnar gleymdi að ýta á hnapp sem tryggir jafnþrýsting í farþegarýminu. 166 farþegar voru í vélinni og leituðu yfir þrjátíu farþegar, flestir indverskir, til læknis við lendingu.

Nokkrir farþeganna birtu myndir og myndskeið af atvikinu á Twitter og lýsa því hvernig skelfingarástand greip um sig þegar súrefnisgrímur féllu úr loftinu eftir að blæða fór úr eyrum og nefi nokkurra farþega.

Satish Nair, farþegi í vélinni, birti mynd af sér á Twitter með súrefnisgrímu og segir hann að öryggi farþeganna hafi verið hunsað að öllu leyti.

Samkvæmt upplýsingum frá flugmálaráðuneyti Indlands hefur áhöfn flugvélarinnar verið send í leyfi á meðan rannsókn málsins fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka