Milda lýsingar vegna loftslagsbreytinga

Olíuborpallur á Mexíkóflóa. Dregið er úr „raunverulegri hættu“ hlýnunar jarðar …
Olíuborpallur á Mexíkóflóa. Dregið er úr „raunverulegri hættu“ hlýnunar jarðar í lokaútgáfu skýrslunnar til að sefa þær þjóðir sem eiga mikið undir notkun jarðefnaeldsneytis. AFP

Dregið er úr „raunverulegri hættu“ hlýnunar jarðar í lokaútgáfu alþjóðlegrar skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga og segir dagblaðið Guardian það gert til að sefa þær þjóðir sem eiga mikið undir notkun jarðefnaeldsneytis.

Að sögn ritdómara sem hafa séð fyrri útgáfur skýrslunnar eru vísindamenn, sem vinna að lokaútgáfunni, nú að ritskoða eigin viðvaranir til að skýrslan falli í betri jarðveg hjá þjóðum á borð við Bandaríkin, Sádi-Arabíu og Ástralíu sem hafa verið treg til að draga úr útblástri vegna jarðefnaeldsneytis.

„Með því að draga úr verstu áhrifum loftslagsbreytinga undanskilja höfundar skýrslunnar mikilvægar upplýsingar úr samantektinni fyrir löggjafana,“ hefur Guardian eftir Bob Ward, sem fer yfir stefnumótunarmálum hjá Grantham-stofnuninni, sem sérhæfir sig í  umhverfis- og loftslagsmálum.

„Átti ríkisstjórnir sig ekki á umfangi vandans og hve bráður hann er þá kunna þær að vanmeta hversu mikilvægt er að þær mæti markmiðum Parísarsáttmálans um loftslagsbreytingar. Það getur svo haft alvarleg áhrif á baráttuna gegn hnattrænni hlýnun.“

Ekki minnst á hættu golfstraumsins eða Grænlandsjökul

Skýrslan er unnin af IPPC (Intergovernmental Panel on Climate Change), alþjóðlegri stjórn um loftslagsbreytingar, að beiðni löggjafa í kjölfar Parísafundar Sameinuð þjóðanna í desember 2015. Þar samþykktu þjóðir heims að reyna að halda hlýnun jarðar innan við 2°.

Til stendur að kynna skýrsluna á fundi í Suður-Kóreu í byrjun október og þar kemur fram að það muni hafa hrikalegar afleiðingar verði hlýnun jarðar meiri en 2°. Yfirborð sjávar muni í kjölfarið hækka og eyðimerkursvæði stækka, sem aftur hefur alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda dýrategunda og kjörlendi þeirra. Jöklar muni enn fremur bráðna og hættan á öflugum fellibyljum og stormum aukast.

Áhyggjur manna snúa hins vegar að sögn Guardian að yfirlitinu sem löggjafar fá afhent, því það sé það skjal sem þeir muni nýta sér við breytingar á löggjöfum landa sinna. 

Meðal þeirra upplýsinga sem hafa verið fjarlægðar úr yfirlitinu er að minnst sé á hættuna á auknum fólksflutningum og átökum fari hlýnun jarðar fari yfir 1,5°.

Eins sé hvergi minnst á hættuna sem Golfstrauminum stafi af köldu vatni sem berist frá norðurskautinu með bráðnun jökla. Né heldur sé varað við hættunni á því að Grænlandsjökull hverfi verði hlýnun jarðar meiri en 1,5-2° og að í kjölfarið muni sjávarstaða hækka um 1-2 metra á næstu tveimur öldum.

Guardian hefur eftir talsmanni IPPC, að yfirlitið eigi að vera í takt við niðurstöður skýrslunnar. „Þeir breyta kannski orðalagi til að útskýra eitthvað betur, eða bæta við texta sem ekki var í yfirlitinu til að byrja með,“ sagði hann og bætti við að jafnvel þó að eitthvað sé fjarlægt úr yfirlitinu þá verði það enn að finna í skýrslunni sjálfri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert