Hollendingar banna símanotkun á hjóli

Símanotkun hjólreiðamanna er vaxandi vandamál.
Símanotkun hjólreiðamanna er vaxandi vandamál. Ljósmynd/Wikipedia.org

Símanotkun hollenskra hjólreiðamanna er töluvert vandamál og það er ekki óalgengt að sjá hjólandi vegfarendur með augun föst á símanum á meðan þeir þeysast áfram um göturnar á fleygiferð. AFP-fréttastofan greinir frá.

Þetta verður hins vegar bráðum ólöglegt því vegna aukinnar slysatíðni þar sem símanotkun hjólreiðamanna kemur við sögu hafa yfir yfirvöld ákveðið að setja bann við notkuninni og gera má ráð fyrir því að viðurlögin verði þau sömu og vegna símanotkunar undir stýri ökutækja. hámarkssekt yrði því rúmlega 30 þúsund krónur. Lögin taka gildi í júlí á næsta ári.

„Það er alveg jafn hættulegt að vera með augun á símanum þegar þú ert hjólandi og undir stýri á öðru ökutæki. Staðreyndin er sú að þegar þú ert úti á vegum þá verður þú að vera með augun og athyglina á veginum en ekki senda skilaboð eða gera eitthvað annað í símanum,“ segir samgönguráðherra Hollands, Cora van Nieuwenhuizen.

Michael Kulkens, sem barist hefur fyrir slíku banni frá því 13 ára gamall sonur hans lést í hjólreiðaslysi þar sem símanotkun kom við sögu, árið 2015, táraðist þegar hann frétti að bannið væri að verða að veruleika.

„Ég varð að stöðva bílinn út í vegkanti því augu mín fylltust af tárum þegar ég heyrði af banninu í útvarpinu. Ég hugsaði með mér: „Okkur tókst það, Tommy minn, okkur tókst það,“ sagði hann í samtali við hollenska dagblaðið De Telegraaf.

Hjólreiðar eru vinsæll lífstíll í Hollandi, en fleiri hjól eru í landinu en fólk. Talið er að um 23 milljón hjól séu í landinu, en íbúarnir eru um 17 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert