Tilræðismaðurinn rússneskur foringi

Anatoliy Vladimirovich Chepiga er til vinstri.
Anatoliy Vladimirovich Chepiga er til vinstri. AFP

Rússneskur karlmaður, sem grunaður er um að hafa hafa ásamt öðrum Rússa reynt að myrða Sergei Skripal og dóttur hans Júlíu í borginni Salisbury í Bretlandi í mars á þessu ári, er háttsettur foringi í leyniþjónustu rússneska herráðsins.

Þetta hefur verið upplýst af hópi rannsóknarblaðamanna. Maðurinn, Anatoliy Vladimirovich Chepiga, er að þeirra sögn margheiðraður ofursti í leyniþjónustunni sem er stærsta leyniþjónustustofnun Rússlands. Chepiga mætti í viðtal í rússneskum fjölmiðlum á sínum tíma ásamt hinum Rússanum sem grunaður er um að hafa staðið að morðtilrauninni en þar gengu þeir undir nöfnunum Ruslan Boshirov og Alexander Petrov.

Chepiga er 39 ára gamall og ofursti að tign. Hann hefur tekið þátt í stríðinu í Úkraínu og tók áður þátt í stríðinu í Tjetsníu. Hann var heiðraður árið 2014 í leynilegri athöfn með nafnbótinni hetja Rússlands af Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Pútín hefur haldið því fram að mennirnir tveir hafi aðeins verið staddir í Salisbury sem ferðamenn.

Fjallað er meðal annars um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en þar er haft eftir fyrrverandi rússneskum herforingja að tign Chepiga sé til marks um það að skipunin um að Skripal yrði myrtur hafi komið „frá æðstu stöðum“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka