Úr þjóðargersemi í kynferðisafbrotamann

Leikarinn og grínistinn Bill Cosby þótti hin fullkomna föðurímynd þar …
Leikarinn og grínistinn Bill Cosby þótti hin fullkomna föðurímynd þar til tugir kvenna stigu fram fyrir nokkrum árum og ásökuðu hann um kynferðislegt ofbeldi. AFP

Leikarinn Bill Cosby hefur á nokkrum árum farið frá því að vera þjóðargersemi Bandaríkjanna sem ruddi brautina fyrir svarta leikara og skemmtikrafta yfir í dæmdan ofbeldishneigðan kynferðisbrotamann sem var leiddur úr dómsal í handjárnum.

Bill Cosby var leiddur út í járnum eftir dómsuppkvaðninguna í …
Bill Cosby var leiddur út í járnum eftir dómsuppkvaðninguna í gær. AFP

William Henry Cosby Jr. byrjaði feril sinn í uppistandi á næturklúbbnum hungry i í San Francisco á sjöunda áratug síðustu aldar. Cosby fékk hlutverk í sjónvarpsþættinum I Spy árið 1965 og í kjölfarið reis frægðarsól hans hratt. Árið 1969 fékk hann sinn eigin gamanþátt, The Bill Cosby Show.

Bill Cosby árið 1969.
Bill Cosby árið 1969. Ljósmynd/Wikipedia.org

Út frá þeim þáttum varð teiknimyndaþáttaröðin Fat Albert and the Cosby Kids til, þar sem Cosby kom persónunni Fat Albert að sem varð til í uppistandi hans. Þættirnir voru í sýningu til 1985 og notaði Cosby þættina meðal annars í doktorsnámi sínu í kennslufræði sem hann lauk árið 1976.

„Hin fullkomna föðurímynd“

Cosby er óneitanlega þekktastur fyrir aðal­hlut­verk sitt í sjón­varpsþátt­un­um The Cosby Show, eða „Fyr­ir­mynd­ar­faðir“ líkt og þátturinn nefndist í íslensku sjónvarpi. Þættirnir hófu göngu sína árið 1984 nutu mikilla vinsælda á níunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda. Síðasta þáttaröðin af The Cosby Show var sýnd 1992. Á árunum 1984 til 1989 voru þættirnir þeir allra vinsælustu í Bandaríkjunum. 

Leikhópur The Cosby Show árið 1989.
Leikhópur The Cosby Show árið 1989. Ljósmynd/Wikipedia.org

Nafn Cosby var ávallt tengt við hina fullkomnu föðurímynd sem hann sýndi í gamanþáttunum þar sem hann kom fyrir sem fyrirmyndarfjölskyldufaðir, ljúfur og góður með ómþýða rödd sem fékk alla til að hlæja.

Þrátt fyrir að sögusagnir um misjafna og saknæma hegðun Cosby væru farnar að heyrast strax á níunda áratug síðustu aldar var Cosby iðulega mikils metinn. Aðeins fimm ár eru síðan spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey hampaði Cosby og sagði að hann hefði rutt brautina fyrir Barack Obama, fyrsta svarta Bandaríkjaforsetann.

The Cosby Show kynnti Bandaríkjamenn fyrir menningarheimi svartra Bandaríkjamanna sem hafði ekki áður sést,“ fullyrti Winfrey. Það eru orð að sönnu, en þátturinn var sá fyrsti í sjónvarpssögu Bandaríkjanna sem var sýndur á kjörtíma þar sem tiltölulega auðug svört, bandarísk fjölskylda var í forgrunni.

Skráður kynferðisbrotamaður það sem eftir er

Ímynd Cosby sem brautryðjanda og fyrirmyndarföður hefur nú verið afmáð. Cosby var í gær dæmdur í fang­elsi vegna kyn­ferðisof­beld­is en dóm­ur­inn er að lág­marki þrjú ár en há­marki tíu ár. Cos­by verður einnig skráður sem kyn­ferðis­brotamaður og þarf að sækja sér sál­fræðiráðgjöf það sem eft­ir er æv­inn­ar.

Cosby var dæmdur fyr­ir að byrla Andr­eu Constand, fyrrverandi körfuboltakonu og starfsmanni Temple-háskóla, lyf fyr­ir 14 árum á heim­ili hans í Fíladelfíu og beita hana í kjöl­farið kyn­ferðisof­beldi sem hún gat ekki spornað við.

Mynd sem var tekin af Cosby við komu hans í …
Mynd sem var tekin af Cosby við komu hans í fangelsið í Montgomery-sýslu eftir að dómur var kveðinn upp í gær. AFP

Constand tilkynnti misnotkunina til lögreglu árið 2005 en ákæra var ekki gefin út þar sem sannanir þóttu ekki nægar. Þrettán árum síðar, tveimur réttarhöldum og einni #MeToo-byltingu, er Cosby kominn á bak við lás og slá.

Hvað þurfti til sakfellingar?

Rúm­lega 60 kon­ur hafa sakað Cos­by um kyn­ferðisof­beldi und­an­farna ára­tugi en í mörg­um ti­fell­um er um fyrnd mál að ræða. Eina málið sem fór alla leið fyr­ir dóm­stóla og var ekki fyrnt er mál Constand. Hér má sjá tímalínu yfir lykilatburði sem leiddu til sakfellingar Cosby:

Nóvember 2002:

Cosby og Constand hittast á körfuboltaleik í Temple-háskólanum, þar sem þau störfuðu bæði á þeim tíma.

Janúar 2004:

Cosby bauð Constand á heimili sitt þar sem hann misnotaði hana kynferðislega.

Janúar 2005:

Constand segir móður sinni frá því þegar Cosby misnotaði hana og saman hitta þær Cosby og ræða við hann um atvikið. Síðar í mánuðinum tilkynnir Constand Cosby til lögreglunnar þar sem hún tjáði lögreglunni að Cosby hafi gefið henni þrjár bláar töfl­ur og vín áður en hann mis­notaði hana kyn­ferðis­lega á sóf­an­um.

Febrúar 2005:

Saksóknari í Montgomery-sýslu í Fíladelfíu tilkynnir að málið verði látið niður falla þar sem sannanir þóttu ekki nægar.

Mars 2005:

Constand höfðar einkamál gegn Cosby. Í kjölfarið stíga tugir kvenna fram og saka Cosby um kynferðislega misnotkun. Nokkrar þeirra báru vitni í réttarhöldunum.

Október 2014:

Grín­ist­inn Hanni­bal Buress vakti at­hygli á ásök­un­un­um á hend­ur Cos­by í uppist­andi þar sem hann sagði meðal annars: „Hann mæt­ir bara í sjón­varpið [og seg­ir:] „Hysjið upp um ykk­ur bux­urn­ar, svart fólk. Ég var í sjón­varp­inu á ní­unda ára­tugn­um. Ég get talað niður til ykk­ar því ég var í vin­sæl­um sjón­varpsþætti.“ Já, en þú nauðgaðir kon­um, Bill Cos­by. Og þar með fell­urðu niður um nokk­ur þrep.“

Júlí 2015:

Dómari gefur út hluta af vitnisburði Cosby frá 2005 þar sem hann viðurkennir meðal annars að hafa gefið Constand þrjár töflur en neitar að hafa brotið af sér.

Desember 2015:

Saksóknari í Montgomery-sýslu tilkynnir að Cosby hafi verið handtekinn og ákærður fyrir kynferðislega áreitni.

Maí 2016:

Aðalmeðferð hefst í máli Constand gegn Cosby.

Júní 2017:

Réttarhöldin eru dæmd ómerk eftir að dómurum tókst ekki að koma sér saman um dómsuppkvaðningu. Saksóknarar fóru fram á ný réttarhöld.

Apríl 2018:

Cos­by var fund­inn sek­ur í þrem­ur ákæru­liðum og er hæsta refs­ing­in fyr­ir hvern og einn þeirra tíu ára fang­elsi.

September 2018:

Cosby var dæmd­ur í fang­elsi vegna kyn­ferðisof­beld­is. Dóm­ur­inn er að lág­marki þrjú ár en há­marki tíu ár.

Cosby hefur aldrei sýnt merki um iðrun og hefur aðeins tjáð sig um ásakanirnar í fjölmiðlum í því samhengi að um kynþáttahatur sé að ræða. Hann vilji halda áfram að starfa í skemmtanaiðnaðnum og koma fram. Óljóst er hversu lengi Cosby, sem er 81 árs og kveðst vera lögblindur, mun afplána dóm sinn.

Óljóst er hversu lengi Bill Cosby mun sitja bak við …
Óljóst er hversu lengi Bill Cosby mun sitja bak við lás og slá. AFP


Greinin er byggð á umfjöllunum Independent, Los Angeles Times og BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert